Yassine Bounou, markvörður Sevilla og Marokkó, er í viðræðum við enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United. Þetta segja blaðamenn Foot Mercato.
Heimsmeistaramótið var vel heppnað hjá Bounou og hans mönnum í Marokkó en liðið hafnaði í 4. sæti mótsins og var fyrsta Afríkuþjóðin til að komast í undanúrslit keppninnar.
Bounou er 31 árs gamall og spilar fyrir Sevilla á Spáni en áður var hann á mála hjá Girona og Atlético Madríd.
Samkvæmt blaðamönnum Foot Mercato er hann í viðræðum við enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United.
Manchester United er þó ekki eina félagið sem er á eftir Bounou en þýskir miðlar greina einnig frá því að Bayern München sé að skoða það að fá markvörðinn knáa.
Bayern er í leit að markverði til að fylla í skarðið fyrir Manuel Neuer, sem meiddist í skíðaferðalagi í Austurríki. Neuer er frá út tímabilið og þarf þýska félagið því að hafa hraðar hendur í að finna mann í hans stað.
Athugasemdir