Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   fim 03. janúar 2019 10:48
Magnús Már Einarsson
Hannes í erfiðri stöðu í Aserbaídsjan: Ég er á krossgötum
Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta hefur ekki gengið nákvæmlega eins og ég var að vona af alls konar ástæðum," segir íslenski landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson í viðtali við Hjörvar Hafliðason í Dr. Football í dag.

Hannes samdi við Qarabag í Aserbaídsjan í sumar en dvölin þar hefur verið erfið. Hannes hefur ekki fengið að spila undanfarnar vikur og hann var ekki í leikmannahópnum gegn Arsenal í Evrópudeildinni í síðasta mánuði.

Mætti meiddur til Aserbaídsjan
Hannes tognaði á nára fyrir lokaleik Íslands á HM í sumar og þau meiðsli gerðu honum erfitt fyrir í byrjun í Aserbaídsjan.

„Það hefur gengið á ýmsu og ég hef upplifað ótrúlega hluti þarna. Maður á ekki að vera að afsaka sig en ég kom þarna inn meiddur og var meiddur þarna fyrsta mánuðinn," sagði Hannes.

Veit aldrei hver spilar
Þegar Hannes kom til Qarabag var heimamaðurinn Sahruddin Mehemmedeliyev á mála hjá félaginu en síðan bættist brasilíski markvörðurinn Vagner einnig við hópinn.

„Þjálfarinn sagði við mig þegar ég skrifaði undir að hann ætlaði bara að vera með tvo markmenn en af því að ég var meiddur fá þeir annan markvörð. Við erum þrír og það er í raun algjör óþarfi. Maður veit aldrei hver spilar. Það er alveg random hver spilar í markinu. Það eru fæstir sem gera þetta og það er ástæða fyrir því."

„Ég hef ekki spilað eins mikið og ég hafði vonast eftir. Ég var kominn inn í þetta af meiri krafti en áður hafði spilað nokkra leiki og gengið vel. Síðan kom einn erfiður leikur gegn Sporting Lisabon (29. nóvember) þar sem ég fékk á mig sex mörk og spilaði ekki vel. Síðan á hef ég ekki spilað neitt."

Qarabag er úr leik í Evrópudeildinni og þar sem að kvóti er á erlendum leikmönnum í deildinni í Aserbaídsjan eru líkur á að Hannes verði áfram úti í kuldanum eftir áramót. Hann gæti því mögulega ákveðið að róa á önnur mið.

„Ég er á krossgötum núna hvað ég ætla að gera. Ég er að skoða mín mál og framtíðina," sagði Hannes í Dr. Football.

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið í heild
Athugasemdir
banner
banner
banner