Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   fös 22. nóvember 2024 20:20
Brynjar Ingi Erluson
Mascherano tekur við Inter Miami
Mynd: EPA
Argentínski þjálfarinn Javier Mascherano er að taka við bandaríska félaginu Inter Miami en þetta segir hinn afar áreiðanlegi blaðamaður Cesar Luis Merlo í dag.

Tata Martino hætti með Inter Miami á dögunum vegna persónulegra ástæðna og hefur David Beckham, eigandi félagsins, unnið hörðum höndum að því að finna arftaka hans.

Það tók ekki langan tíma. Merlo segir að Inter Miami hafi náð samkomulagi við Argentínumanninn Javier Mascherano um að hann taki við liðinu.

Mascherano spilaði með Barcelona og Liverpool á ferli sínum og var meðal annars liðsfélagi þeirra Lionel Messi, Luis Suarez, Sergio Busquets og Jordi Alba, sem eru allir á mála hjá Inter Miami í dag.

Eftir farsælan feril tók hann við þjálfun U20 ára landsliðs Argentínu og stýrði þá U23 ára liðinu á Ólympíuleikunum í sumar.

Fyrrum miðjumaðurinn gerir þriggja ára samning við Inter Miami sem setti stigamet í MLS-deildinni er liðið varð deildarmeistari í fyrsta sinn.
Athugasemdir
banner
banner