Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
   þri 04. febrúar 2014 21:49
Alexander Freyr Tamimi
Atlantsbikarinn: Breiðablik fékk stigin tvö
Guðjón Pétur skoraði mark Blika í venjulegum leiktíma úr vítaspyrnu.
Guðjón Pétur skoraði mark Blika í venjulegum leiktíma úr vítaspyrnu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Blikar þurftu að fara í vítaspyrnukeppni og unnu.
Blikar þurftu að fara í vítaspyrnukeppni og unnu.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Breiðablik gerði í kvöld 1-1 jafntefli gegn austurríska liðinu SV Mattersburg þegar liðin mættust í Atlantsbikarnum í Portúgal og þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni.

Þar höfðu Blikar betur eftir æsispennandi keppni og fá því tvö stig úr leiknum á meðan þeir austurrísku fá eitt.

Þetta var fyrsti leikur Breiðabliks í keppninni, en Guðjón Pétur Lýðsson kom liðinu yfir á 23. mínútu úr vítaspyrnu.

Mattersburg jafnaði hins vegar metin í byrjun seinni hálfleiks og urðu mörkin ekki fleiri, lokatölur 1-1 þar sem ekki var mikið fréttnæmt.

Því var gripið til vítaspyrnukeppni og skorið úr um hvort liðið fengi tvö stig.

Stefán Gíslason byrjaði á að skora úr fyrstu vítaspyrnu Blika, en hann sendi markvörðinn í rangt horn. Mattersburg skoraði einnig úr sinni fyrstu spyrnu.

Jordan Halsman steig næstur á punktinn fyrir Blika og skoraði einnig með því að senda markvörðinn í rangt horn, en aftur skoraði Mattersburg þó að Gunnleifur hafi valið rétt horn.

Næstur steig Finnur Orri Margeirsson á punktinn, en spyrna hans var varin. Í kjölfarið skoraði leikmaður Mattersburg af öryggi og staðan 2-3 eftir þrjár vítspyrnur.

Damir Muminovic skoraði svo af öryggi úr fjórðu spyrnu Blika og jafnaði metin. Leikmaður Mattersburg brenndi svo af þegar hann skaut yfir markið.

Gísli Eyjólfsson skoraði síðan úr fimmtu spyrnu Blika og Gunnleifur varði fimmtu spyrnu Mattersburg, og aukastigið því Breiðabliks.

Breiðablik mætir næst Rúrik Gíslasyni og félögum í FC Kaupmannahöfn þann 10. febrúar.

FH tekur einnig þátt í þessu móti og mætir sænska liðinu Örebro á morgun. Líkt og leikur kvöldsins verður sá leikur í beinni á Eurosport 2.
Athugasemdir
banner
banner