Huijsen vill vera áfram á Englandi - Ramsdale og Verbruggen á blaði Man Utd - Leeds vill Weigl
   þri 08. apríl 2025 09:30
Ívan Guðjón Baldursson
Mbappé: Auðvelt að velja Real Madrid framyfir peninga
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Franski sóknarleikmaðurinn Kylian Mbappé ræddi við La Sexta fyrir stórleik Real Madrid gegn Arsenal sem fer fram í kvöld. Liðin mætast í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Mbappé hefur aldrei unnið Meistaradeildina og vonast til að gera það á sínu fyrsta tímabili í Madríd, sem er sigursælasta félag í sögu keppninnar.

„Ég myndi velja Meistaradeildina framyfir Ballon d'Or. Markmiðið mitt er að komast í sögubækurnar með Real Madrid," sagði Mbappé. Hann fór til Real Madrid á frjálsri sölu síðasta sumar þrátt fyrir að vera með samningstilboð frá PSG og Sádi-Arabíu.

„Það var auðvelt að velja Real Madrid framyfir peninga. Ég vildi bara spila á Santiago Bernabéu í Real Madrid treyju. Ég vildi vera hamingjusamur og ég er það hérna í Madríd."

Mbappé er vinstri kantmaður að upplagi en sú staða er tekin hjá Real Madrid. Hann hefur því verið að spila sem fremsti sóknarmaður, með Brasilíumanninn Vinícius Júnior á kantinum.

„Ég á í frábæru sambandi við Vini Jr, ég get ekki ímyndað mér þetta lið án hans. Að spila með Vini er partur af ástæðunni fyrir að ég vildi koma hingað."
Athugasemdir
banner