Það virðist hafa gripið um sig ný (má segja gömul) tíska í íslenskum fótbolta þetta sumarið en þrjú lið í Bestu deildinni eru með kraga á búningum sínum.
Það eru Reykjavíkurfélögin Fram, KR og Valur. Fram er í Errea á meðan hin tvö liðin spila í Macron.
Það eru Reykjavíkurfélögin Fram, KR og Valur. Fram er í Errea á meðan hin tvö liðin spila í Macron.
Segja má að allir þessir búningar hafi heppnast mjög vel en þeir sækja innblástur í gamla tíma þegar kraginn var sem vinsælastur í fótboltanum. Kraginn minnir mann óneitanlega á Eric Cantona tímann í Manchester United en hann gekk skrefinu lengra og spilaði alltaf með kragann uppi.
Núna er þessi retró tíska komin inn í íslenskan fótbolta, í Bestu deildina 2025 og hún litar deildina á skemmtilegan hátt. Viðskiptamaðurinn og fyrrum fótboltamaðurinn Sindri Snær Jensson, sem er einn af eigendum fataverslunarinnar Húrra Reykjavíkur, er hrifinn af Cantona tískunni í íslenska boltanum þetta sumarið.
„Heilt yfir eru búningarnir í Bestu deildinni í ár mjög flottir. Það vekur athygli að Reykjavíkurliðin þrjú KR, Valur & Fram eru mætt með kraga á treyjurnar, Cantona style. Ég er auðvitað ekki hlutlaus en KR treyjan í ár ber klárlega af í fegurð," segir Sindri við Fótbolta.net.
„Eina sem ég saknaði var að vera með síðerma treyjur, það stingur alltaf aðeins í augun að sjá menn í þröngum síðerma bol undir, contrastinn verður smá leiðinlegur. Það er líka eitthvað mjög retro og svalt að sjá menn í síðerma treyju og hvað þá með kraga. Frábær vinna hjá Óla Þór & Jón Kára í samstarfi við Macron. Eflaust margir sem höfðu áhyggjur þegar KR fór úr Nike, en þær hafa reynst óþarfar. Heilt yfir er ég mjög hrifinn af þessari þróun með kragana og það að gera eitthvað extra."
Sindri hrósar einnig treyju FH og Víkings. „Ég kýs að líta á glasið hálffullt í flestum tilvikum en nokkrar treyjur í ár eru frekar óspennandi en þó snyrtilegar og í anda sinna félaga. Flottustu og mest spennandi treyjurnar ásamt KR eru að mínu mati Fram treyjan sem tekur sénsa. Einnig er undirliggjandi klassi yfir FH treyjunni, mjög settleg og snyrtileg með tone-in-tone munstri. Þá er Víkings treyjan mjög flott," segir Sindri.
Fyrstu umferðinni í Bestu deildinni er lokið en næsta umferð hefst á sunnudag. Hér fyrir neðan má sjá frábært myndband sem KR gerði þegar treyjan þeirra var kynnt.
Nýja Macron treyja KR í ár sækir innblástur sinn til ársins 1999 — eins sigursælasta tímabils í sögu félagsins, þegar bæði karla- og kvennalið KR urðu tvöfaldir meistarar.
— KR Reykjavik FC (@KRreykjavik) March 27, 2025
Forsala á nýju KR-treyjunni er hafin: https://t.co/4GJbHwJvEW pic.twitter.com/uTCWmfGs2E
Athugasemdir