Úrvalsdeildarfélög vilja lykilmenn frá Leipzig - Juve gæti reynt að kaupa Tonali - Tottenham hafnar tilboðum - Griezmann fær nýjan samning -...
   þri 08. apríl 2025 20:34
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Þjóðadeild kvenna: Fyrsti sigur Betu kom gegn Evrópumeisturunum
Mynd: Belgíska fótboltasambandið
Elísabet Gunnarsdóttir stýrði belgíska landsliðinu í fjórða sinn í kvöld en hún beið eftir sínum fyrsta sigri. Liðinu tókst að vinna sinn fyrsta leik í kvöld þegar liðið lagði ríkjandi Evrópumeistara Englands.

Liðin mættust einnig í síðustu umferð þar sem Belgía tapaði 5-0. Belgíska liðið byrjaði leikinn í kvöld mun betur og komst yfir eftir 4. mínútna leik.

Tessa Wullaert, liðsfélagi Cecilíu Ránar Rúnarsdóttur hjá Inter átti stórleik hjá belgíska liðinu. Hún kom liðinu yfir, lagði upp annað mark liðsins eftir stundafjórðung og kom svo Belgíu í 3-0 með marki eftir tæplega hálftíma leik.

Beth Mead, framherji Arsenal, minnkaði muninn með marki úr vítaspyrnu stuttu síðar.

England var með öll völd á vellinum í seinni hálfleik og náði að minnka muninn enn frekar þegar skammt var til loka venjulegs leiktíma en nær komust þær ekki.

Belgía er áfram á botninum með þrjú stig, stigi á eftir Portúgal sem steinlá 7-1 gegn Spáni í kvöld. England er í 2. sæti, tveimur stigum á eftir toppliði Spánar.

Frakkland er komið í undanúrslit Þjóðadeildarinnar eftir sigur á Noregi í riðli Íslands. Ísland er aðeins stigi á eftir Noregi þegar tvær umferðir eru eftir en 2. sætið tryggir liðinu áframhaldandi veru í A deild.

Noregur 0 - 2 Frakkland

Belgía 3-2 England
Athugasemdir