„Okkar líst vel á leikinn, andstæðingurinn er sterkur, rútinerað lið með líkamlega sterkum og góðum leikmönnum. Þær komust í riðlakeppnina í fyrra. Að sama skapi teljum við okkur líka vera með gott lið. Við þurfum að spila okkar besta leik til að ná í góð úrslit," sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals, við Fótbolta.net í gærkvöldi.
Pétur ræddi um fyrri leikinn gegn St. Pölten í Meistaradeildinni. Liðin mætast á Hlíðarenda í kvöld og er um að ræða fyrri leik liðanna í 2. umferð forkeppninnar. Liðið sem vinnur einvígið fer í riðlakeppnina.
Pétur ræddi um fyrri leikinn gegn St. Pölten í Meistaradeildinni. Liðin mætast á Hlíðarenda í kvöld og er um að ræða fyrri leik liðanna í 2. umferð forkeppninnar. Liðið sem vinnur einvígið fer í riðlakeppnina.
Hvað er hægt að gera svo þær nái ekki að nýta sína styrkleika?
„Besta sem þú gerir er að halda boltanum og spila í kringum þær, þá þarftu ekki að fara í tæklingar við þær og annað. Þær eru alveg undirbúnar fyrir það, það sést alveg á þessu liði."
Eru leikmenn í liðinu sem þarf að stoppa?
„Mateja Zver er í liðinu, hún spilaði með Þór/KA á sínum tíma. Hún er mjög góður leikmaður. Þær vilja spila ákveðinn fótbolta og það er bara spurning hvernig við getum lokað á það."
Rokleikur, en skjól í stúkunni
Spáin er ekki frábær fyrir kvöldið, hvernig líst Pétri á hana?
„Við erum búin að vera heppin með það í sumar, held þetta verði fyrsti rokleikurinn síðan í maí. Þetta er bara hluti af því að vera á Íslandi; æfum í þessu allan veturinn. Við erum vön þessu. Auðvitað hefðum við viljað hafa betri aðstæður, en það kemur bara í ljós þegar leikur hefst hvernig veðrið í rauninni er."
Pétur vonast til að sjá sem flesta í stúkunni í kvöld. „Það er skjól í stúkunni hjá Val miðað við þá átt sem spáð er. Það væri æðislegt að fá góðan stuðning frá Valsfólki og konum almennt á Íslandi; sem vilja koma og horfa á fótboltaleik þó að það sé smá rok."
Allar klárar
Hvernig er standið á hópnum?
„Standið á hópnum er mjög gott, það eru allar klárar í leikinn. Við fáum að velja 23 þannig að það verða allar í hópnum, þarf ekki að taka neina út."
Alltaf gott að hafa forskot
Valur féll úr leik í Meistaradeildinni á þessu stigi á síðasta tímabili. Slavia Prag vann á Hlíðarenda og liðin gerðu svo markalaust jafntefli í Tékklandi. Hversu mikilvægt er að fara með góða stöðu út í seinni leikinn?
„Það getur munað miklu, Slavia Prag fór með 1-0 út í fyrra og gat spilað leik sinn þannig úti að hann var erfiður fyrir okkur. Það er mikill munur að fara með forskot og geta spilað öðruvísi leik; betri varnarleik án þess að þurfa að taka sénsa. Það er alltaf gott að hafa forskot."
Nýtt síðustu leiki til að undirbúa leikinn í kvöld
Hvað hefur verið einblínt á í undirbúningnum?
„Við erum bæði að skoða þær og horfa í okkar leik. Við erum búin að vera undirbúa þessa viðureign síðan við urðum Íslandsmeistarar; höfum verið að fókusa á það sem við viljum gera í þessari Meistaradeild. Við vitum hvernig þær spila, hvernig við viljum spila á móti þeim og undirbúningurinn er búinn að vera mjög góður finnst mér. Vonandi gengur það líka upp úti á velli."
„Já, við höfum að sömu leyti nýtt leikina í deildinni til að undirbúa hvernig við viljum spila gegn St. Pölten. Þetta er svolítið sérstakt og skrítið, en við höfðum tækifæri sem við gátum að einhverju leyti nýtt okkur og við gerðum það."
„Við horfðum mest á hvernig þær spiluðu í forkeppninni (frekar en í austurrísku deildinni). Þær spiluðu við Slavia Prag í riðlinum í fyrra. Fyrri leikurinn fór 1-0 fyrir St. Pölten og seinni leikurinn fór jafntefli. Sigurmarkið var skot af löngu færi. Við teljum styrkleika þeirra svipaðan og Slavia Prag í fyrra."
Öðruvísi lið en í fyrra
En Valsliðið, er það betra lið en í fyrra?
„Ég myndi frekar orða það þannig að liðið er öðruvísi. Í undanförnum leikjum hafa tveir leikmenn verið að spila sem voru í liðinu í fyrra. Það hafa orðið miklar breytingar og liðið er svolítið örðuvísi."
Fleiri vopn? „Já, við erum með fleiri vopn og fleiri möguleika," sagði Pétur.
Samkvæmt veðbönkum er St. Pölten talið líklegra liðið til að sigra leikinn í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 18:00.
Athugasemdir