Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   sun 22. desember 2024 20:00
Ívan Guðjón Baldursson
Ange: Getum verið ánægðir með að hafa skorað þrjú
Mynd: EPA
Ange Postecoglou svaraði spurningum fréttamanna eftir 6-3 tap Tottenham á heimavelli gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Postecoglou þjálfar Tottenham og vill að liðið sitt spili með mjög háa varnarlínu, en það getur kostað gegn sterkum andstæðingum eins og Liverpool. Sérstaklega þegar byrjunarliðsmennirnir úr vörninni eru flestir að glíma við meiðsli.

„Þetta er augljóslega mjög sárt tap fyrir okkur en við verðum að óska Liverpool til hamingju, þeir voru alltof góðir fyrir okkur í dag. Þeir eru með stórkostlegt fótboltalið og þeim hefur verið að ganga mjög vel síðustu mánuði. Þeir eru fullir sjálfstrausts og við vorum ekki nógu góðir," sagði Postecoglou.

„Við erum að fá alltof mikið af mörkum á okkur og ég hef svarað því oft hvers vegna það er. Fólk hlýtur að sjá það sjálft. Það hlýtur að telja með að okkur vantar aðalmarkvörðinn, báða byrjunarliðsmiðverðina og vinstri bakvörðinn. Ég veit ekki hvernig ég á að svara þessari spurningu lengur, þetta er alltaf sama sagan.

„Hvaða lið sem er myndi lenda í erfiðleikum með varnarleikinn sinn ef sömu leikmenn væru meiddir þar. Þetta eru fjórir byrjunarliðsmenn af fimm sem vantar í vörnina. Liverpool myndi lenda í basli með þessi meiðsli, það leikur ekki vafi á því.

„Við getum verið ánægðir með að hafa tekist að skora þrjú mörk gegn Liverpool, það er ekki mörgum liðum sem tekst að gera það."


Tottenham er óvænt í ellefta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, með 23 stig eftir 17 umferðir.
Athugasemdir
banner
banner
banner