Man Utd gæti gert tilboð í Berge - Arsenal hefur enn áhuga á Osimhen - Tottenham hefur áhuga á Solanke
   fim 11. júlí 2024 21:13
Ívan Guðjón Baldursson
Sambandsdeildin: Emil Atlason gerði bæði í góðum sigri
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Stjarnan 2 - 0 Linfield
1-0 Emil Atlason ('22)
1-0 Chris Shields ('27, misnotað víti)
2-0 Emil Atlason ('60)

Lestu um leikinn: Stjarnan 2 -  0 Linfield

Stjarnan er í góðri stöðu eftir 2-0 sigur gegn Linfield í forkeppni Sambandsdeildarinnar í kvöld, þar sem Emil Atlason var hetja Garðbæinga.

Stjörnumenn voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og verðskulduðu að taka forystuna þegar Emil skoraði glæsimark beint úr aukaspyrnu á 22. mínútu. Emil klíndi boltanum undir samskeytin þar sem markvörðurinn átti ekki möguleika á að ná til boltans.

Skömmu síðar fengu gestirnir frá Norður-Írlandi dæmda vítaspyrnu eftir klaufalegan varnarleik hjá Kjartani Má Kjartanssyni en Chris Shields skaut boltanum í slána.

Stjarnan fékk færi til að tvöfalda forystuna en undir lok fyrri hálfleiks voru gestirnir í liði Linfield mikið í sókn og óheppnir að fá ekki vítaspyrnu eða skora jöfnunarmark fyrir leikhlé.

Bæði lið fengu góð færi í upphafi síðari hálfleiks en á 60. mínútu tvöfaldaði Emil forystuna eftir aðra aukaspyrnu. Upprunalegt skot fór í varnarvegginn en boltinn datt aftur fyrir Emil, sem lét vaða á ný og endaði sú tilraun í netinu eftir viðkomu í varnarmanni.

Norður-Írarnir játuðu sig ekki sigraða og fengu góð færi til að minnka muninn en tókst ekki. Þeir vildu fá dæmdar nokkrar vítaspyrnur sem þeir fengu ekki og svo bjargaði Örvar Eggertsson á marklínu.

Það var áfram fjör á lokakafla leiksins en hvorugu liði tókst að setja boltann í netið, þó að Linfield hafi komist nær því.

Lokatölur 2-0 fyrir Stjörnuna sem er í frábærri stöðu fyrir seinni leikinn í Norður-Írlandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner