Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   fim 11. júlí 2024 18:40
Ívan Guðjón Baldursson
Van de Beek og Abel Ruiz komnir til Girona (Staðfest)
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Hollenski miðjumaðurinn Donny van de Beek er búinn að skrifa undir undir samning við spænska félagið Girona eftir fjögur slæm ár í Manchester.

Van de Beek gerir fjögurra ára samning við Girona en spænska félagið borgar ekki nema 500 þúsund pund til að kaupa leikmanninn.

Í kaupsamningnum eru þó árangurstengdar aukagreiðslur sem geta náð allt að 8 milljónum punda, auk þess sem Manchester United heldur háu hlutfalli af endursölurétti leikmannsins.

Van de Beek er 27 ára gamall og var gríðarlega eftirsóttur á sínum tíma eftir að hafa gert frábæra hluti með Ajax og hollenska landsliðinu. Hann missti sæti sitt í landsliðinu eftir að hafa verið keyptur til Man Utd.

Van de Beek reyndi fyrir sér á lánssamningum hjá Everton og Eintracht Frankfurt en gekk illa. Hjá Everton settu meiðslavandræði strik í reikninginn á meðan leikmanninum tókst ekki að vinna sér inn byrjunarliðssæti hjá Frankfurt í vor.

Þá er sóknarleikmaðurinn fjölhæfi Abel Ruiz einnig kominn til Girona. Hann gerir fimm ára samning við félagið eftir að hafa verið lykilmaður í sóknarlínu Braga í Portúgal.

Ruiz er 24 ára gamall og ólst upp í La Masia akademíu Barcelona. Hann þótti gríðarlega mikið efni á sínum tíma og kom við sögu í einum deildarleik með meistaraflokki Barcelona áður en hann var seldur til Braga.

Ruiz á tvo leiki að baki fyrir A-landslið Spánar eftir að hafa verið algjör lykilmaður upp yngri landsliðin. Hann skoraði 53 mörk í 88 leikjum, mestmegnis undir stjórn Luis de la Fuente sem er í dag þjálfari A-landsliðs Spánverja.

Girona var einnig búið að festa kaup á Ladislav Krejci fyrr í sumar og þá er hollenski táningurinn Gabriel Misehouy kominn á frjálsri sölu frá Ajax.

Misehouy er sóknartengiliður sem á 12 leiki og 4 mörk fyrir yngri landslið Hollands.


Athugasemdir
banner
banner