Í írskum fjölmiðlum hefur verið talað um að Ole Gunnar Solskjær, fyrrum stjóri Man Utd, hafi neitað starfinu.
„Þetta kom gríðarlega á óvart," segir írski fréttamaðurinn Andrew Dempsey í samtali við Fótbolta.net um ráðningu Heimis Hallgrímssonar sem landsliðsþjálfara Írlands.
Það er vel hægt að taka undir það orð en lítið hafði heyrst um það að Heimir myndi taka við Írlandi áður en tilkynningin var gefin út. Nokkrum dögum áður hafði hann hætt sem landsliðsþjálfari Jamaíku og var greinilegur áhugi á honum víða, en landsliðsþjálfarastarf Írlands hafði hvergi verið nefnt í tengslum við Heimi áður en hann skrifaði undir samning.
Það er vel hægt að taka undir það orð en lítið hafði heyrst um það að Heimir myndi taka við Írlandi áður en tilkynningin var gefin út. Nokkrum dögum áður hafði hann hætt sem landsliðsþjálfari Jamaíku og var greinilegur áhugi á honum víða, en landsliðsþjálfarastarf Írlands hafði hvergi verið nefnt í tengslum við Heimi áður en hann skrifaði undir samning.
Þegar litið er á samfélagsmiðla þá sést að Írar eru misánægðir með þessa ráðningu. Flestir kannast ekki mikið við Heimi og kom ráðningin verulega á óvart.
„Viðbrögðin hafa verið mjög blönduð. Við þekkjum ekki mikið til Heimis fyrir utan það að hann stýrði Íslandi til sigurs gegn Englandi á EM 2016. Og hann er jú tannlæknir sem þykir frekar fyndið. Þetta hefur verið langt og strembið ferli, sem kannski hjálpar honum ekki. Það er svolítið spennandi að sjá nokkuð öðruvísi ráðningu en áður, en fólk bjóst við meiru ef svo má segja," segir Dempsey.
Trúa ekki allir að Heimir hafi verið fyrsti kostur
Ferlið hjá írska fótboltasambandinu í leit að nýjum þjálfara var langt og strax. Stephen Kenny var rekinn í nóvember síðastliðnum en það var vitað frá síðasta sumri að hann yrði ekki áfram með liðið. Núna rúmu ári síðar er kominn nýr þjálfari, Heimir Hallgrímsson úr Vestmannaeyjum.
„Lee Carsley, fyrrum landsliðsmaður Írlands, var snemma líklegastur og var sagður hafa fundað með írska sambandinu áður en Stephen Kenny var látinn fara. En ferlið var hægt og það tókst ekki að freista hans. Gus Poyet var svo orðaður við starfið og sömuleiðis Willy Sagnol, landsliðsþjálfari Georgíu. Ole Gunnar Solskjær og Anthony Barry voru einnig orðaðir við Írland," segir Dempsey.
„Það var mikil þögn í kringum ferlið en það tók 231 dag að ráða nýjan þjálfara. Það öskrar á mig að írska sambandið hafi ekki verið með fulla stjórn á því sem þeir voru að gera."
Írskir fjölmiðlar hafa mikið velt því fyrir sér af hverju það hefur tekið svo langan tíma að finna nýjan þjálfara. Forsvarsmenn írska sambandsins hafa sagt að Heimir hafi verið efsti maður á blaði en það trúa því ekki allir á Írlandi.
„Það var nokkuð ljóst í júní á síðasta ári að Stephen Kenny yrði látinn fara svo írska sambandið hefur haft meira en ár til að finna rétta manninn. Sambandið hefur talað um að þetta snúist allt um að fylgja ákveðnu ferli en það er erfitt að trúa því þar sem þeir hafa talað við svo marga þjálfara með mismunandi bakgrunn og stíl frá byrjun. Jonathan Hill, sem var framkvæmdastjóri, hætti í miðju ferlinu og það hjálpaði ekki varðandi að klára það að finna þjálfara. Tíminn sem það tók að ráða þjálfara skilur eftir meiri spurningar en svör," segir Dempsey.
Þá verður hann dáður hér í langan tíma
Heimir sat fyrir svörum á fréttamannafundi í gær og segir Dempsey að hann hafi komið vel fyrir þar. Hann þurfi ekkert sérlega mikið til að vinna stuðningsmennina á sitt band eftir mikil vonbrigði inn á vellinum síðustu árin. Það er nokkur hiti í kringum írska sambandið líka og erfið mál sem hafa komið upp.
„Heimir stóð sig vel á fyrsta fréttamannafundi sínum og kom býsna vel fyrir. Hann tæklaði spurningarnar vel og þegar lætin í kringum írska sambandið minnka, þá munu stuðningsmennirnir standa við bakið á honum - eins og við gerum alltaf."
„Við spilum við England heima í september og ef við náum jákvæðum úrslitum þar - ef við forðumst tap - þá munum við ættleiða hann sem Íra um leið. En jafnvel þó svo að það takist ekki, þá er aðalmarkmiðið að koma Írlandi á stórmót og ef honum tekst það, þá verður hann dáður hér í langan tíma."
„Hann þarf að tengja nokkur úrslit saman. Það hljómar nokkuð einfalt en Írlandi hefur gengið illa síðan í undankeppni HM 2018. Við höfum ekki komist á stórmót síðan á EM 2016. Írland er með ungt lið sem er að safna reynslu og þegar Heimi tekst að safna saman góðum úrslitum, þá er það góð byrjun. Írland er á mjög lágu plani í augnablikinu svo það þarf ekki mikið. Við unnum bara Gíbraltar í undankeppni EM 2024 – sem segir líklega allt sem segja þarf," sagði Dempsey að lokum.
Athugasemdir