Spænski landsliðsmaðurinn Dani Olmo er með söluákvæði í samningi sínum hjá þýska félaginu RB Leipzig sem fellur úr gildi 20. júlí.
Ákvæðið nemur 50 milljónum evra en þessi öflugi sóknartengiliður mun kosta talsvert hærri upphæð eftir að ákvæðið rennur úr gildi.
Olmo er 26 ára gamall og á þrjú ár eftir af samningi við Leipzig, félag sem hann hefur spilað 148 leiki fyrir á fjóru og hálfu ári.
Olmo er mikilvægur hlekkur í liði RB Leipzig en spilaði aðeins 25 leiki á síðustu leiktíð vegna meiðslavandræða. Hann kom að 13 mörkum með beinum hætti á þeim tíma og hefur svo átt frábært mót með spænska landsliðinu á EM í Þýskalandi sem er í gangi um þessar mundir.
Þar byrjaði Olmo á bekknum í riðlakeppninni en fékk svo byrjunarliðssæti þegar Pedri meiddist og hefur verið í algjöru lykilhlutverki síðan.
Olmo hefur í heildina skorað 11 mörk í 38 landsleikjum með Spáni og er hann kominn með þrjú mörk og tvær stoðsendingar í síðustu fjórum leikjum á EM.
„Ef eitthvað félag vill kaupa mig þá er hægt að nýta ákvæðið til 20. júlí, eftir það verður erfitt að fá mig!" sagði Olmo við El Larguero í gær.
„Ég er samningsbundinn Leipzig og mig langar að vinna titla."
Athugasemdir