Burnley ætlar sér stóra hluti í Championship deildinni á næstu leiktíð og er að krækja í brasilískan vinstri bakvörð sem kemur úr röðum Santos og kostar ekki nema um 2,5 milljónir evra.
Lucas Pires er 23 ára gamall og lék á láni með Cádiz í efstu deild spænska boltans á síðustu leiktíð, eftir að hafa spilað fyrir Santos í heimalandinu í tvö ár þar á undan. Hann á að leysa þau miklu vandræði sem hafa verið með vinstri bakvarðarstöðu Burnley allt frá því að Ian Maatsen sneri aftur til Chelsea eftir lánssamning fyrir einu ári síðan.
Scott Parker er nýlega tekinn við félaginu eftir að Vincent Kompany var ráðinn til FC Bayern og eru háleitar væntingar fyrir komandi leiktíð, þar sem stjórnendur og stuðningsmenn Burnley vilja sjá liðið komast beint aftur upp í efstu deild.
Burnley er nú þegar búið að krækja í Mike Trésor og Maxime Estéve fyrir 30 milljónir evra í sumar og ætlar núna að bæta Pires við hópinn.
Trésor og Estéve léku með Burnley á láni á síðustu leiktíð og hrifu þjálfarateymið.
Shurandy Sambo er þá einnig kominn til Burnley, en hann er hægri bakvörður og kemur á frjálsri sölu frá PSV Eindhoven.
Athugasemdir