Spænski miðjumaðurinn Saúl Niguez er að skipta yfir til Sevilla eftir 16 ár hjá Atlético Madrid.
Saúl var 12 ára gamall þegar hann fór í unglingaakademíuna hjá Real Madrid en tveimur árum seinna skipti hann til Atlético og hefur verið þar síðan.
Saúl hefur verið afar mikilvægur hlekkur í sterku liði Atlético og á hann 427 leiki að baki fyrir félagið.
Núverandi samningur hans við Atlético rennur út sumarið 2026 en Saúl er ekki partur af áformum Diego Simeone þjálfara fyrir næstu leiktíð, þrátt fyrir að hafa komið við sögu í 49 leikjum með liðinu á síðustu leiktíð.
Hann er því búinn að semja við Atlético um starfslok og mun skipta yfir til Sevilla, þar sem hann tekur 50% launalækkun á sig til að ganga til liðs við félagið.
Saúl er 29 ára gamall og var gríðarlega eftirsóttur af stórliðum víða um Evrópu á sínum tíma. Hann lék á láni hjá Chelsea tímabilið 2021-22 en sú lánsdvöl mislukkaðist.
Miðjumaðurinn knái á 19 A-landsleiki að baki fyrir Spán eftir að hafa verið lykilmaður upp yngri landsliðin.
Sevilla er þegar búið að krækja í Chidera Ejuke og Peque Férnandez í sumar, en Sergio Ramos og Rafa Mir eru farnir.
Athugasemdir