Varnarjaxlinn Stefan Savic hefur fengið leyfi frá stjórnendum Atlético Madrid til að yfirgefa félagið á frjálsri sölu í sumar, þó að hann eigi ennþá eitt ár eftir af samningi.
Savic er 33 ára gamall Svartfellingur sem lék fyrir Partizan Belgrad, Manchester City og Fiorentina áður en hann skipti til Atlético Madrid sumarið 2015.
Hann hefur reynst afar mikilvægur hlekkur í ógnarsterku liði Atlético og á hann í heildina 297 keppnisleiki að baki fyrir félagið.
Hann var hjá Atlético í níu ár og vann meðal annars spænsku deildina og Evrópudeildina á dvöl sinni í spænsku höfuðborginni.
Næsta skref á ferli Savic er óljóst þar sem hann hefur verið orðaður við félög úr öllum heimshornum, meðal annars frá Sádi-Arabíu, Tyrklandi og Bandaríkjunum.
Þetta þýðir að Atlético þarf að kaupa sér miðverði í sumar. Axel Witsel er orðinn 35 ára gamall á meðan César Azpilicueta verður 35 í ágúst, sem gerir hinn 29 ára gamla José María Giménez að unglambi í hjarta varnarinnar.
Atlético er þá búið að losa sig við þrjá leikmenn í sumar, eftir að Memphis Depay var sleppt á frjálsri sölu og Caglar Söyüncü seldur til Fenerbahce.
Athugasemdir