Það fóru fjórir leikir fram í 3. deild karla í dag þar sem toppliðin Kári og Víðir mættust í Akraneshöllinni.
Staðan var markalaus eftir fyrri hálfleik en heimamenn í liði Kára tóku forystuna snemma í síðari hálfleik með marki frá Marinó Hilmari Ásgeirssyni.
Gestirnir úr Garði voru ekki tilbúnir til að missa Kára alltof langt framúr sér í toppbaráttunni og skoraði Haraldur Smári Ingason jöfnunarmark á 67. mínútu.
Meira tókst mönnum ekki að skora og urðu lokatölur 1-1, þar sem Kári er í toppsætinu með 27 stig eftir 12 umferðir - tveimur stigum fyrir ofan Víði.
Árbær er í þriðja sæti eftir nauman sigur gegn Vængjum Júpters, þar sem Andi Andri Morina skoraði eina mark leiksins á elleftu mínútu. Þetta eru dýrmæt stig fyrir Árbæ sem er aðeins fjórum stigum frá toppsætinu, á meðan Vængirnir sitja eftir í fallbaráttu.
Botnlið KV virðist þá vera staðráðið í að rífa sig úr botnsætinu og styrktu Vesturbæingar leikmannahópinn sinn verulega á dögunum. Tveir af nýju leikmönnunum skoruðu í frábærum sigri á útivelli gegn Sindra í dag.
Nýju leikmennirnir Samúel Már Kristinsson og Óðinn Bjarkason, sem hafa þó báðir spilað fyrir KV áður, gerðu sitthvort markið en Konráð Bjarnason og Björn Henry Kristjánsson komust einnig á blað í 1-4 sigri á Hornafirði. Hornfirðingar fengu að líta tvö rauð spjöld á lokamínútunum.
KV er áfram á botni deildarinnar eftir þennan sigur en þó aðeins tveimur stigum frá öruggu sæti, með 9 stig úr 12 umferðum. Sindri er einnig í fallbaráttunni, með 11 stig.
Að lokum gerðu Magni og KFK 1-1 jafntefli, þar sem Björgvin Stefánsson tók forystuna fyrir KFK snemma í síðari hálfleik.
Sigurður Brynjar Þórisson jafnaði þó leikinn fyrir Magna og urðu lokatölur 1-1. Liðin eru jöfn um miðja deild með 16 stig.
Björgvin er kominn með 6 mörk í 10 leikjum í 3. deild eftir að hafa átt erfitt uppdráttar með Haukum og Þrótti Vogum í 2. deild í fyrra.
Kári 1 - 1 Víðir
1-0 Marinó Hilmar Ásgeirsson ('50 )
1-1 Haraldur Smári Ingason ('67 )
Árbær 1 - 0 Vængir Júpiters
1-0 Andi Andri Morina ('11 )
Sindri 1 - 4 KV
0-1 Konráð Bjarnason ('19 )
0-2 Samúel Már Kristinsson ('32 )
1-2 Ragnar Þór Gunnarsson ('47 )
1-3 Óðinn Bjarkason ('58 )
1-4 Björn Henry Kristjánsson ('83 )
Rautt spjald: Arnór Berg Grétarsson, Sindri ('88)
Rautt spjald: Abdul Bangura, Sindri ('93)
Magni 1 - 1 KFK
0-1 Björgvin Stefánsson ('58 )
1-1 Sigurður Brynjar Þórisson ('87 )
Athugasemdir