Marc Cucurella hefur komið skemmtilega á óvart með frammistöðu sinni með spænska landsliðinu á EM í Þýskalandi.
Þessi 25 ára gamli vinstri bakvörður átti erfitt uppdráttar hjá Chelsea á síðustu leiktíð en hefur fengið mikið hrós fyrir frammistöðu sína á EM en hann hefur verið fastamaður í liðinu sem spilar í úrslitum gegn Englandi á morgun.
Cucurella var í skemmtilegu viðtali hjá The Athletic en þar var hann m.a. spurður hvort það væri einhver í enska liðinu sem hann ætti í mestu vandræðum með að verjast gegn.
„Hann hefur ekki spilað mikið á EM en ég verð að segja Cole Palmer. Fótboltaheilinn í honum er svo snöggur, hann er alltaf skrefi á undan öllum. Hann tekur nánast alltaf hárrétta ákvörðun en það er erfiðast að verjast gegn svoleiðis snilligáfu, það er ekki hægt að veðja á hvað hann gerir næst, ég hef fengið að kynnast því á æfingum," sagði Cucurella.
„Hann minnir mig á Lamine Yamal. Sami leikstíll, hann er gæji sem er alveg sama um allt. Þeir taka lífinu eða sjálfum sér ekki of alvarlega. Ef þú myndir rekast á Palmer út á götu myndir þú aldrei átta þig á því að hann væri fótboltamaður. Svo spilar hann og vá."