Franska félagið Rennes hefur hafnað kauptilboði frá FC Bayern í ungstirnið sitt Désiré Doué, sem er ekki nema 19 ára gamall.
Doué er kantmaður og sóknartengiliður sem átti frábærar rispur í franska boltanum á síðustu leiktíð og tókst að koma með beinum hætti að 10 mörkum í 42 leikjum.
Bayern hefur miklar mætur á Doué og bauð 35 milljónir evra til að kaupa hann, en stjórnarmenn Rennes voru ekki lengi að hafna því tilboði.
Bayern er að íhuga að gera endurbætt tilboð í leikmanninn en gæti beðið með það til að fylgjast með framvindu mála hjá hollenska ungstirninu Xavi Simons, sem virðist vera á förum frá PSG í sumar en franska stórveldið vill lána hann út frekar en að selja.
PSG og ensk úrvalsdeildarfélög hafa einnig áhuga á Doué og þá er eldri bróðir hans Guela Doué, hægri bakvörður í liði Rennes, eftirsóttur á Englandi og Ítalíu.
Athugasemdir