Við viljum fá besta stuðning sem við getum fengið og það snýst líka um að við sköpum þessa stemningu.
„Leikurinn leggst gríðarlega vel í mig, er búinn að horfa svolítið lengi til þessa verkefnis. Það er langt á milli leikja fyrri hluta ársins og mars fór eins og það fór. Maður hefur verið með þennan leik í huga og spennandi að það sé að koma að honum núna. Það eru ferskir vindar í liðinu, við erum tilbúnir í slaginn," sagði landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason við Fótbolta.net fyrr í þessari viku.
„Slóvakía er með mjög gott lið, fullt af toppleikmönnum, en þetta snýst mikið um okkur, við þurfum að mæta klárir, ætlum að fara í leikinn til að vinna hann, erum á heimavelli og pressan er á okkur."
„Eins og hvernig riðilinn er að spila þá held ég að Slóvakarnir yrðu mjög sáttir með stig en við viljum klárlega þrjú. Við erum í fullum undirbúningi fyrir allar stöður sem geta komið upp í þessum leik og vonandi verðum við bara 100% klárir þegar það verður flautað á á laugardaginn."
Getur alltaf pínt sig í 90
Er íslenska liðið að fara í leikinn til að reyna halda mikið í boltann?
„Ég held að við ætlum að blanda því, ætlum að reyna spila árangursríkt og reyna byrja leikinn af miklum krafti. Við þurfum að mixa þessu upp, halda boltanum þegar það á við og keyra hratt þegar það á við. Við verðum að finna þá blöndu. Mér finnst við vera með hrikalega gott lið, góðan og breiðan hóp og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að við spilum toppleik á laugardaginn."
Er Alfreð klár í 90 mínútur ef kallið kemur frá landsliðsþjálfaranum?
„Maður getur alltaf pínt sig í 90 mínútur. Auðvitað hefði maður viljað spila fleiri 90 mínútur á síðustu vikum. Ég kom til baka úr meiðslum nokkuð langt á undan áætlun og fékk svo því miður rautt spjald sem endaði tímabilið á skrítinn hátt. Ég er búinn að vera æfa síðustu vikur og líður gríðarlega vel. Það er líka bara fínn undirbúningur."
Snýst um að við sköpum stemninguna
Það er uppselt á leikinn gegn Portúgal og ekki margir miðar lausir á leikinn gegn Slóvakíu. Er mikil tilhlökkun að spila fyrir framan marga áhorfendur?
„Já auðvitað. Það var náttúrulega mjög leiðinlegt að sjá þessa heimaleiki með hálftóma stúku. Við viljum fá besta stuðning sem við getum fengið og það snýst líka um að við sköpum þessa stemningu. Það kemur með úrslitum. Núna er góður möguleiki að byggja upp smá 'momentum' fyrir liðið; að það verði aftur barist um miða til að koma og horfa á íslenska landsliðið í fótbolta."
„Við höfum ekki mikið farið í einstaka leikmenn, en nokkrir leikmenn í liðinu okkar hafa spilað með leikmönnum í þeirra liði. Við vitum hvar við teljum vera veikleika. Þeir eru með leikmann í liði ítölsku meistaranna (Lobotka hjá Napoli) sem segir ansi mikið. Við vitum að við erum að fara mæta mjög góðu liði."
Alfreð lék sjálfur í hálft tímabil með Laszlo Benes (miðjumaður HSV) þegar Slóvakinn var á láni hjá Augsburg. Benes er ekki með slóvakíska hópnum vegna meiðsla.
Kannski var eitthvað að ofan sem lét mig fá þetta rauða spjald
Freyr Alexandersson, þjálfari Lyngby, talaði um að Alfreð hefði verið tilbúinn að fórna ferlinum þegar hann kom langt á undan áætlun til baka eftir axlarmeiðsli.
„Það erfiða við svona meiðsl að það getur í raun enginn sagt þér hversu lengi þú verður frá eða hvenær þú ert klár. Í raun og veru var ég frá út tímabilið og ég tek það í raun og veru ekkert sem svar."
„Ég hef því miður reynslu af meiðslum og veit að ef þú leggur inn vinnuna og ert með hausinn rétt skrúfaðan á, þá geturu komið til baka nokkrum vikum fyrr. Þetta snýst líka um að líða vel á vellinum. Þú þarft að nota hendurnar og axlirnar mikið og það þarf ekki mikið að gerast til að þetta gerist aftur. Því fyrr sem þú ferð inn á völlinn því meiri líkur eru á að þetta gerist aftur. Ef þetta gerist svona fljótt aftur þá þarftu að fara í aðgerð og ert frá í 6-7 mánuði. Það er ekkert grín."
„Það var mikil áhætta að koma til baka svona snemma, en ég var tilbúinn í það. Kannski var eitthvað að ofan sem lét mig fá þetta rauða spjald svo ég gæti fengið hvíld í síðustu tveimur leikjunum og hægði aðeins á mér," sagði Alfreð á léttu nótunum. „Auðvitað var þetta mikil áhætta en ég var tilbúinn í það."
Landsliðið, samningurinn og botnbaráttan spiluðu saman
Alfreð talaði snemma í viðtalinu um að það væri langt á milli landsleikja fyrri hluta árs. Hann meiddist eftir landsleikina í mars og var sagður frá út tímabilið. Notaði hann landsliðið líka til að keyra sig til baka inn á völlinn?
„Auðvitað spilar landsliðið stóra rullu fyrir mann, viðurkenni það alveg. Ég ætlaði ekki að missa af þessum leikjum og ég vissi að ég þyrfti að taka þátt í æfingum og leikjum til að koma til greina í landsliðið. Það voru margir þættir sem spiluðu saman í þessari endurkomu. Samningurinn var að renna út og við vorum í bullandi botnbaráttu. Ég vildi vera mættur þó svo að ég væri langt frá því að vera 100% þegar ég kom til baka. Af því að það gekk vel þá var það þess virði," sagði Alfreð. Í gær var svo greint frá því að hann væri búinn að framlengja samninginn við Lyngby og er nú samningsbundinn fram á næsta sumar.
Leikurinn gegn Slóvakíu fer fram á Laugardalsvelli á laugardag og hefst klukkan 18:45.
Athugasemdir