Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
   fös 17. maí 2013 10:00
Fótbolti.net
Spá Fótbolta.net fyrir 1. deild kvenna: A-riðill
Fylki er spáð beinustu leið upp aftur
Fylki er spáð beinustu leið upp aftur
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Skagastúlkur misstu af sæti í úrslitum í fyrra og ætla sér eflaust að bæta fyrir það í ár
Skagastúlkur misstu af sæti í úrslitum í fyrra og ætla sér eflaust að bæta fyrir það í ár
Mynd: Sigurður Arnar Sigurðsson
Haukum er spáð 3. sæti en ÍR-ingum því fimmta.
Haukum er spáð 3. sæti en ÍR-ingum því fimmta.
Mynd: Slava Titov
Fram-stúlkur enda í 4. sæti A-riðils samkvæmt spánni
Fram-stúlkur enda í 4. sæti A-riðils samkvæmt spánni
Mynd: Aðsend
Stúlkunum af Álftanesi er spáð 7. sæti
Stúlkunum af Álftanesi er spáð 7. sæti
Mynd: Aðsend
Heimavöllurinn mun vega þungt hjá BÍ/Bolungarvík
Heimavöllurinn mun vega þungt hjá BÍ/Bolungarvík
Mynd: Ívar Atli Sigurjónsson
Tindastól er spáð 8. sæti
Tindastól er spáð 8. sæti
Mynd: Björn Ingvarsson
Nýliðum Víkings er spáð erfiðu sumri
Nýliðum Víkings er spáð erfiðu sumri
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keppni í 1. deild kvenna hefst á morgun en þá mætast Fylkir og Tindastóll á Fylkisvelli kl.14:00 og ÍA og BÍ/Bolungarvík munu eigast við í Akraneshöllinni kl. 16:00. Við á Fótbolta.net fengum nokkra boltaspekinga til að spá fyrir um 1.deildina í sumar. Eins og undanfarin ár er deildinni skipt upp í tvo riðla og tvö efstu lið úr hvorum riðli taka þátt í úrslitakeppni um tvö laus sæti í úrvalsdeild í haust. Í dag opinberum við spánna fyrir A-riðilinn og fylgjum henni eftir með spá fyrir B-riðilinn á miðvikudag en fyrstu leikir B-riðlis verða spilaðir á fimmtudag.

Sérfræðingar Fótbolta.net eru sex talsins og þau röðuðu liðunum upp eftir því sem þau telja líklega lokastöðu eftir riðlakeppnirnar. Liðið í efsta sæti fær 10 stig, annað sætið 8 stig, 6 stig fyrir þriðja, 5 fyrir fjórða og svo koll af koll en liðinu sem spáð er 9.sæti fær ekkert stig. Athugið að spáin er fyrst og fremst til gamans gerð og hún var unnin fyrir lokadag félagaskiptagluggans. Þar fengu mörg liðanna liðsstyrk sem mun án efa hafa áhrif á lokastöðuna í riðlunum.

Sérfræðingarnir: Dúfa Dröfn Ásbjörnsdóttir, Hafliði Breiðfjörð, Jóhann Kristinn Gunnarsson, Magnús Már Einarsson, Theodór Sveinjónsson, Þorleifur Óskarsson.

Spáin:
Fylkir 58 stig
ÍA 44 stig
Haukar 42 stig
Fram 29 stig
ÍR 19 stig
Álftanes 15 stig
BÍ/Bolungarvík 12 stig
Tindastóll 7 stig
Víkingur Ó. 1 stig

Sérstakur álitsgjafi okkar í ár er Þorleifur Óskarsson, annar þjálfara Vals. Hann hefur verið viðriðinn 1.deildina undanfarin ár. Fyrst sem þjálfari Þróttar og síðar sem þjálfari Fjölnis. Sjáum hvað Þorleifur hefur að segja um liðin í A-riðli:

1. Fylkir
Fylkisliðið sem óvænt féll úr pepsi deild kvenna í fyrra hefur haldið sínum mannskap að mestu og reynsluboltinn Ragna Lóa Stefánsdóttir er komin við stjórnvölinn. Liðið spilar mjög góðan fótbolta og er einfaldlega betur mannað en flest önnur lið deildarinnar. Það er því nokkuð ljóst er að markmið Fylkis verður að fara beinustu leið upp aftur annað telst stórslys. Ragna Lóa getur miðlað af mikilli reynslu og ætti því ekki að eiga í teljandi erfiðleikum að standast þá pressu að fara með Fylkisliðið upp.

2. ÍA
ÍA hefur verið að búa sig undir undanfarin ár að komast aftur á meðal þeirra bestu, m.a. með því að láta stelpurnar klára 2.flokk og skrá síðan til leiks meistarflokk. Í fyrra var skrefið tekið, en ÍA mistókst að komast í umspil í fyrra þrátt fyrir spár um að liðið myndi fara upp. Nú í mars var skipt um þjálfara, þ.a. líklega má telja að þolinmæðin sem hefur einkennt kvennaboltann á Skaganum sé á þrotum. Magneu Guðlaugs, þjálfara Skagastúlkna bíður það hlutskipti að koma liðinu upp og verður fróðlegt að sjá hvernig sú pressa fer með liðið.

3. Haukar
Haukar hafa verið að byggja upp ungt og efnilegt lið, mjög margar stúlkur hafa komið til liðsins og hefur Jón Stefán, þjálfari Hauka náð að mynda góðan og stóran hóp sem mun vafalítið blanda sér í toppbaráttuna í þessum erfiða riðli. Koma Pálu Marie Einarsdóttur í Hauka mun vafalaust reynast liðinu dýrmætt enda getur hún miðlað af reynslu sinni til þessa unga liðs. Leikmannahópur Hauka er breiðari en hjá flestum liðum deildarinnar og það getur vegið þungt þegar álagið fer að aukast.

4. Fram
Framliðið fór næstum taplaust í gegnum tímabilið í fyrra, en töpuðu síðan í umspili fyrir Þrótti. Árið í ár hefur verið aðeins erfiðara og hafa leikir á undirbúningstímabilinu ekki gefið tilefni til bjartsýni um samsvarandi árangur. En Haukur, þjálfari Framstúlkna hefur verið klókur og styrkti liðið verulega með sterkum leikmönnum á lokadegi félagaskiptagluggans. Fram gæti því hæglega velgt bestu liðum riðilsins undir uggum.

5. ÍR
ÍR liðið hefur hægt og rólega verið að bæta sig. Ungu stelpurnar undir stjórn hins reynda þjálfara Sigurðar Þóris hafa verið að standa sig vel á undirbúningstímabilinu. ÍR ingar hafa farið í samstarf við 2.fl Vals og munu þær vafalítið styrkja lið ÍR. Liðið bætti við sig hvorki fleiri né færri en 17 leikmönnum á lokadegi félagskiptagluggans og eru því elítið óskrifað blað.

6. BÍ/Bolungarvík
Ísfirðingar komu á óvart á sínu fyrsta ári í fyrra og ekki síst fyrir tilkomu tveggja mjög öflugra brasilískra leikmanna. Liðið hefur nú fengið til sín aftur þessa öflugu leikmenn en deildin í heild er hins vegar mun sterkari í ár en hún var í fyrra. Búast má við að árið í ár verði Vestfjarðarstúlkum erfiðara en ljóst er að ekkert lið fer vestur og sækir auðveld stig. Heimavöllurinn mun vega þungt í stigasöfnun liðsins í sumar.

7. Álftanes
Álftanes hefur farið í samstarf við 2.flokk Stjörnunnar og munu ungu stelpurnar þar fá mikla og góða reynslu í 1. deildinni. Þess utan munu stúlkurnar frá Stjörnunni klárlega hjálpa Álftanesi í baráttunni því nokkrar þeirra hafa töluvert meiri gæði en áður voru í Álftanesliðinu. Sveins Guðmundssonar bíður vandasamt og spennandi verkefni við að viðhalda þeirri frábæru liðsheild sem einkennt hefur lið Álftanes undanfarin ár.

8. Tindastóll
Tindastóll hefur bætt við sig tveimur erlendum leikmönnum auk þess sem þeirra sterkasti leikmaður frá í fyrra, Rakel Hinriksdóttir er komina aftur til liðs við félagið. Þjálfarar liðsins, þau Guðjón Örn Jóhannsson og Dúfa Dröfn Ásbjörnsdottir, eru feyki öflugir leiðbeinendur og hafa þau unnið mikið og gott starf með ungu stelpunum á Króknum í vetur. Þó svo að afraksturinn sjáist kannski ekki strax í sumar, mun fljótt birta til í starfinu á króknum á næstu árum.

9. Víkingur Ólafsvík
Það er frábært að sjá ný lið í 1.deildinni og mun þetta verða tímabil lærdóms og reynslusöfnunar hjá Ólafsvíkurstúlkum. Í liðinu eru efnilegar stúlkur en helst til ungar til að takast á við sterkstu lið 1.deildar. Víkingur bætti við sig tveimur erlendum leikmönnum í félagaskiptaglugganum og mun geta þeirra ráða miklu um hve mörg stig liðið nælir í. Liðið má sjálfasagt búast við nokkrum erfiðum leikjum, en með hjartað á réttum stað er allt hægt og fögnum við fótboltaunnendur því framtaki íbúa á Snæfellsnesi að senda til leiks kvennalið.
Athugasemdir