Eddie Howe segist ekki hafa áhuga á því að skipta um starf svo lengi sem honum líður vel innan herbúða Newcastle United.
Howe hefur verið sterklega orðaður við þjálfarastarfið hjá enska landsliðinu eftir að Gareth Southgate sagði upp eftir tap í úrslitaleik annað Evrópumótið í röð.
„Ég starfa fyrir ótrúlegt fótboltafélag og ég er virkilega stoltur af því að vera þjálfarinn hérna," sagði Howe við BBC úti í Þýskalandi þar sem Newcastle er statt í æfingaferð um þessar mundir.
„Ég elska stuðningsfólkið, leikmennina og starfsfólkið hérna. Ég hef engan áhuga á því að yfirgefa þennan stað svo lengi sem ég er ánægður og mér líður eins og ég hafi stuðning. Ég er hamingjusamur í Newcastle."
Howe hefur verið við stjórnvölinn hjá Newcastle í tvö og hálft ár og er talinn eiga tvö eða þrjú ár eftir af samningnum við félagið, en það ríkir mikil leynd yfir samningslengdinni.
Athugasemdir