Everton ætlar að fá Chukwueze - Man Utd reynir að sannfæra Davies - Arsenal gæti fengið Vlahovic á góðu verði
   mán 21. október 2024 20:00
Ívan Guðjón Baldursson
Arnór Ingvi skoraði - AGF sigraði í toppbaráttunni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það komu nokkrir Íslendingar við í leikjum dagsins í skandinavíska boltanum, þar sem Arnór Ingvi Traustason skoraði eina mark Norrköping í jafnteflisleik gegn Brommapojkarna.

Hlynur Freyr Karlsson lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá gestunum og urðu lokatölur 1-1.

Það eru aðeins þrjár umferðir eftir af sænska deildartímabilinu og er Brommapojkarna svo gott sem búið að tryggja sæti sitt í deildinni. Norrköping er þó aðeins einu stigi frá fallsæti.

Kolbeinn Þórðarson var á sama tíma í byrjunarliði Gautaborgar sem tapaði heimaleik gegn AIK. Kolbeinn lék fyrstu 83 mínútur leiksins og var skipt af velli í stöðunni 0-1, en lokatölur urðu 1-2.

Göteborg er tveimur stigum fyrir ofan Norrköping í fallbaráttunni.

Mikael Anderson var þá í byrjunarliði AGF sem lagði Bröndby að velli í efstu deild danska boltans. Mikael lék nánast allan leikinn þar sem honum var skipt af velli í uppbótartímanum.

Århus er að gera gott mót í ár og er komið með 23 stig eftir 12 umferðir. Liðið situr í þriðja sæti deildarinnar, einu stigi á eftir toppliðum FCK og Midtjylland.

Að lokum er komið að norska boltanum þar sem Davíð Snær Jóhannsson lék allan leikinn í góðum sigri Álasundar á heimavelli gegn Start í næstefstu deild.

Á 79. mínútu leiksins kom Eyþór Björgólfsson inn af bekknum í liði Start, en hann er hálf-íslenskur í gegnum föður sinn. Eyþór skoraði eina mark Start í 3-1 tapi.

Þetta var afar dýrmætur sigur fyrir Álasund, sem er núna fimm stigum fyrir ofan fallsvæðið þegar þrjár umferðir eru eftir. Start siglir lygnan sjó um miðja deild eftir að hafa verið í harðri fallbaráttu allt tímabilið, en Álasund batt enda á fjögurra leikja sigurhrinu hjá Start með þessum sigri í dag.

U21 landsliðsmaðurinn Óskar Borgþórsson var í byrjunarliði Sogndal sem gerði markalaust jafntefli við Mjondalen. Sogndal er jafnt Álasundi á stigum rétt fyrir ofan fallsvæðið.

Norrkoping 1 - 1 Brommapojkarna
0-1 T. Bergvall ('19)
1-1 Arnór Ingvi Traustason ('45+1)

Goteborg 1 - 2 AIK

AGF 1 - 0 Brondby

Mjondalen 0 - 0 Sogndal

Aalesund 3 - 1 Start

Athugasemdir
banner