Man City og Liverpool hafa áhuga á Buonanotte - Bournemouth ætlar ekki að gefa neinn afslátt á Kerkez - Liverpool vill Schlotterbeck - Semenyo til...
banner
   sun 20. október 2024 20:11
Brynjar Ingi Erluson
Jói Berg með stórbrotið mark í endurkomusigri - Júlíus lagði upp sigurmark Fredrikstad
Jóhann Berg skoraði geggjað jöfnunarmark
Jóhann Berg skoraði geggjað jöfnunarmark
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daníel Leó var í vörn SönderjyskE sem vann óvæntan sigur á meisturunum
Daníel Leó var í vörn SönderjyskE sem vann óvæntan sigur á meisturunum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Berg Guðmundsson átti stóran þátt í frábærum 3-2 endurkomusigri Al Orubah á lærisveinum Steven Gerrard í Al Ettifaq í Sádi-Arabíu í kvöld.

Landsliðsmaðurinn var á sínum stað í byrjunarliði Al Orubah og tókst að jafna leikinn fyrir liðið á 74. mínútu með stórkostlegu marki eftir stoðsendingu Cristian Tello.

Jóhann Berg fékk boltann einhverjum 35 metrum frá marki, setti hann á vinstri og kíndi honum efst í samskeytin vinstra megin. Óverjandi fyrir markvörð Al Ettifaq.

Cristian Tello gerði síðan sigurmarkið tíu mínútum síðar og þar við sat.



Al Orubah er komið upp í 10. sæti með 10 stig, upp að hlið Al Ettifaq.

Óvænt úrslit áttu sér þá stað í dönsku úrvalsdeildinni er nýliðar SönderjyskE unnu 3-2 sigur á meisturunum í Midtjylland.

Elías Rafn Ólafsson hefur átt betri daga í marki Midtjylland en hann fær 5,6 í einkunn á FotMob.

Daníel Leó Grétarsson, sem lék í vörninni hjá SönderjyskE, var með 6,4 í einkunn.

Kristall Máni Ingason var ekki með nýliðunum í dag. Midtjylland er í öðru sæti með 24 stig en SönderjyskE í 10. sæti með 11 stig.

Atli Barkarson var með bestu mönnum Zulte Waregem sem vann 1-0 sigur á Patro Eisden í belgísku B-deildinni.

Sigurinn kom Waregem á toppinn með 19 stig eftir átta leiki.

Lærisveinar Freys Alexanderssonar í Kortrijk töpuðu fyrir Mechelen, 3-0, í belgísku úrvalsdeildinni. Patrik Sigurður Gunnarsson var í marki Kortrijk, en fór meiddur af velli á 23. mínútu.

Kortrijk er í 13. sæti með 11 stig.

Júlíus Magnússon, fyrirliði Fredrikstad, lagði upp sigurmark liðsins í 2-1 sigrinum á Lilleström í norsku úrvalsdeildinni.

Staðan var 1-1 þegar tólf mínútur voru eftir en þá lagði Júlíus boltann á Jeppe Kjær sem keyrði inn að teig Lilleström, snéri af sér varnarmann og skoraði fallegt mark.

Fredrikstad er í 5. sæti deildarinnar með 43 stig þegar fimm umferðir eru eftir, en liðið er aðeins stigi frá Evrópusæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner