Everton ætlar að fá Chukwueze - Man Utd reynir að sannfæra Davies - Arsenal gæti fengið Vlahovic á góðu verði
banner
   mán 21. október 2024 23:00
Ívan Guðjón Baldursson
Búast við að missa Xabi Alonso eftir tímabilið
Mynd: Getty Images
Þýska félagið Bayer Leverkusen býst við að missa þjálfarann sinn Xabi Alonso næsta sumar þó að samningur hans gildi til 2026.

Alonso átti magnað tímabil með Leverkusen á síðustu leiktíð þar sem hann gerði sér lítið fyrir og stýrði liðinu til sigurs í þýsku deildinni án þess að tapa leik, auk þess að vinna bikarinn og komast alla leið í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

Þessi árangur vakti áhuga ýmissa félaga þar sem FC Bayern, Real Madrid, Liverpool og fleiri stórveldi voru orðuð við Alonso í sumar, en hann kaus að vera áfram hjá Leverkusen.

Núna er búist við því að Alonso skipti um félag næsta sumar og eru stjórnendur Leverkusen þegar byrjaðir að leita að arftaka hans. Sky í Þýskalandi segir að Sandro Wagner og Sebastian Hoeness séu ofarlega á óskalistanum þar á bæ.

Sky segir jafnframt að Real Madrid og Manchester City séu áhugasöm um að bjóða Alonso þjálfarastarfið hjá sér í framtíðinni.
Athugasemdir
banner