Newcastle ætlar að bjóða 80 milljónir fyrir Guéhi - Palmer ekki til sölu - Wirtz eftirsóttur - Man Utd vill ráða Amorim - Trent og Frimpong á...
   lau 19. október 2024 18:29
Brynjar Ingi Erluson
England: Tíu leikmenn Arsenal töpuðu fyrir Bournemouth
Bournemouth vann verðskuldaðan sigur á Arsenal
Bournemouth vann verðskuldaðan sigur á Arsenal
Mynd: Getty Images
Arsenal tapaði fyrsta leik sínum á tímabilinu
Arsenal tapaði fyrsta leik sínum á tímabilinu
Mynd: Getty Images
Bournemouth 2 - 0 Arsenal
1-0 Ryan Christie ('70 )
2-0 Justin Kluivert ('79 , víti)
Rautt spjald: William Saliba, Arsenal ('30)

Arsenal tapaði óvænt fyrir Bournemouth, 2-0, í 8. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Vitality-leikvanginum í Bournemouth í dag. Gestirnir í Arsenal spiluðu manni færri í klukkutíma eftir að William Saliba fékk að líta rauða spjaldið fyrir klaufalegt brot.

Heimamenn voru sterkari aðilinn í byrjun leiks og náðu að halda Arsenal-liðinu vel í skefjum.

Þegar um hálftími var liðinn af leiknum varð Arsenal fyrir mikilli blóðtöku. William Saliba reif niður Evanlison sem var að sleppa í gegn og fékk að líta rauða spjaldið eftir skoðun VAR.

Mikill skellur fyrir Arsenal að missa einn mikilvægasta mann liðsins af velli og átti það eftir að vera dýrkeypt.

Mikel Merino fékk að vísu gott færi til að koma Arsenal yfir stuttu eftir rauða spjaldið en setti boltann í hliðarnetið. Þá átti Antoine Semenyo ágætis tilraun hinum megin á vellinum en David Raya gerði vel í markinu.

Semeneyo var að koma sér í fullt af sénsum og fékk hann eitt útvalsfæri snemma í síðari hálfleiknum en setti boltann yfir markið.

Það var stutt á milli í leiknum. Arsenal átti að komast yfir á 69. mínútu eftir að Kepa Arrizabalaga gaf boltann frá sér. Merino fann Martinelli en Kepa kom til bjargar á síðustu stundu.

Mínútu síðar komst Bournemouth yfir með marki Ryan Christie eftir hornspyrnu. Spyrnan var beint af æfingasvæðinu en Lewis Cook kom með lágan bolta sem Justin Kluivert steig yfir áður en Christie setti boltann í netið.

Sex mínútum síðar gerði Kluivert út um leikinn með marki úr vítaspyrnu. Jakub Kiwior átti arfaslaka sendingu til baka. Evanilson var fljótur að átta sig og hljóp inn í sendinguna áður en Raya tók hann niður í teignum.

Glæsilegur sigur Bournemouth staðreynd og afar verðskuldaður en þetta var fyrsta tap Arsenal á tímabilinu. Arsenal er áfram í 3. sæti með 17 stig en Bournemouth með 11 stig í 10. sæti.
Athugasemdir
banner
banner