Man City og Liverpool hafa áhuga á Buonanotte - Bournemouth ætlar ekki að gefa neinn afslátt á Kerkez - Liverpool vill Schlotterbeck - Semenyo til...
   sun 20. október 2024 17:41
Brynjar Ingi Erluson
England: Liverpool aftur á toppinn eftir nauman sigur á Chelsea
Curtis Jones var besti maður Liverpool í dag
Curtis Jones var besti maður Liverpool í dag
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Liverpool 2 - 1 Chelsea
1-0 Mohamed Salah ('29 , víti)
1-1 Nicolas Jackson ('48 )
2-1 Curtis Jones ('51 )

Liverpool hefur endurheimt toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir að liðið vann Chelsea, 2-1, á Anfield í dag.

Fyrri hálfleikur bauð ekki upp á mörg úrvalsfæri en þó nóg af vafaatriðum.

Snemma leiks kom upp umdeilt atvik. Liverpool kom löngum bolta fram völlinn og var Diogo Jota að sleppa í gegn, en þá reif Tosin Adarabioyo portúgalska sóknarmanninn niður og uppskar aðeins gult spjald fyrir.

Svipað atvik átti sér stað í leik Bournemouth og Arsenal í gær en þá fékk William Saliba að líta rauða spjaldið fyrir að toga Evanilson niður.

Chelsea og Liverpool vildu fá vítaspyrnur með nokkurra mínútna millibili. Jadon Sancho féll í teig Liverpool eftir viðskipti sín við Trent Alexander-Arnold en VAR hafði lítinn áhuga á því og þá féll Mohamed Salah í teig gestanna er Levi Colwill fór aftan í hann en það var sama niðurstaða þar.

Ein vítaspyrna var dæmd en það kom á 28. mínútu. Colwill braut þá á Curtis Jones í teignum og var það Salah sem skoraði úr spyrnunni.

John Brooks, dómari leiksins, dæmdi aðra vítaspyrnu undir lok hálfleiksins er Robert Sanchez, markvörður Chelsea, átti að hafa brotið á Jones, en sú ákvörðun var dregin til baka með hjálp VAR, en þar sást Sanchez fyrst ná til boltans áður en Jones var tekinn niður.

Staðan 1-0 fyrir Liverpool í hálfleik en það voru gestirnir sem komu sterkari inn í þann síðari.

Nicolas Jackson jafnaði metin eftir sendingu Moises Caicedo á 49. mínútu. Caicedo sendi boltann í gegnum vörn Liverpool og afgreiddi Jackson boltann snyrtilega í netið.

Aðeins þremur mínútum síðar gerði Curtis Jones sigurmarkið í leiknum. Salah var með boltann hægra megin og kom boltanum inn í teiginn. Varnarmenn Chelsea reyndu að spila Darwin Nunez rangstæðan en pældu ekkert í Jones sem kom í seinna hlaupið og skoraði framhjá Sanchez.

Frábær leikur hjá Jones í dag, sem hefur verið að koma með sterka innkomu inn í byrjunarlið þeirra rauðu.

Liverpool beitti öguðum varnarleik út leikinn. Liðið var langt í frá sannfærandi í dag og var Chelsea óheppið að ná ekki í jöfnunarmark undir lokin er Cole Palmer kom með góða sendingu á Renato Veiga en skalli hans fór yfir markið.

Lokatölur á Anfield, 2-1, Liverpool í vil. Lærisveinar Arne Slot endurheimta toppsætið og eru nú með 21 stig, einu stigi fyrir ofan Englandsmeistara Manchester City. Chelsea er á meðan með 14 stig í 6. sæti.
Athugasemdir
banner
banner