Man City og Liverpool hafa áhuga á Buonanotte - Bournemouth ætlar ekki að gefa neinn afslátt á Kerkez - Liverpool vill Schlotterbeck - Semenyo til...
   sun 20. október 2024 15:23
Ívan Guðjón Baldursson
Cecilía hélt hreinu, Hlín skoraði og Rosengård tapaði
Cecilía í leik með Inter.
Cecilía í leik með Inter.
Mynd: Getty Images
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrstu leikjum dagsins er lokið í kvennaboltanum þar sem Cecilía Rán Rúnarsdóttir varði mark Inter í stórleik gegn Juventus í efstu deild ítalska boltans.

Cecilía hefur verið frábær hjá Inter, þar sem hún leikur á lánssamningi frá þýska stórveldinu FC Bayern, og hélt hreinu í markalausu jafntefli í dag.

Juve trónir á toppi deildarinnar með 19 stig eftir 7 umferðir, en liðið var með fullt hús stiga fyrir jafnteflið í dag. Inter er í þriðja sæti með 15 stig og eru þetta einu lið deildarinnar sem eru enn taplaus.

Sveindís Jane Jónsdóttir lék þá fyrstu 73 mínúturnar í 0-2 sigri Wolfsburg á útivelli gegn Essen í efstu deild í Þýskalandi. Svenja Huth gaf tvær stoðsendingar í sigrinum, þar sem Janina Minge og Lineth Beerensteyn skoruðu mörkin.

Wolfsburg er með 16 stig eftir 7 umferðir og deilir toppsæti þýsku deildarinnar með Frankfurt. Bayer Leverkusen og FC Bayern mætast í innbyrðisviðureign síðar í dag og getur sigurvegarinn úr þeirri viðureign tekið toppsætið í sínar hendur.

Í norska boltanum var Sædís Rún Heiðarsdóttir í byrjunarliði Vålerenga sem sigraði þægilega á heimavelli gegn Kolbotn. Vålerenga vann leikinn 3-0 og tryggði sér þar með Noregsmeistaratitilinn þó það séu enn þrjár umferðir eftir af deildartímabilinu.

Vålerenga er með 66 stig eftir 24 umferðir, ellefu stigum meira en Brann sem situr í öðru sæti.

Í sænska boltanum skoraði Hlín Eiríksdóttir í góðum sigri Kristianstad á útivelli gegn Linköping. Guðný Árnadóttir og Katla Tryggvadóttir voru einnig í byrjunarliðinu í 0-2 sigri. María Catharina Ólafsdóttir Gros var í byrjunarliði Linköping.

Kristianstad er í fjórða sæti sænsku deildarinnar en getur ekki komist í Evrópusæti, á meðan Linköping siglir lygnan sjó í neðri hlutanum.

Guðrún Arnardóttir var þá á sínum stað í byrjunarliði Rosengård sem tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu í dag.

Rosengård hafði unnið fyrstu 23 leiki tímabilsins og komst grátlega nálægt því að afreka fullkomið tímabil í sænsku deildinni, en í dag tapaði liðið heimaleik gegn Hammarby sem er í öðru sæti.

Staðan var 2-1 fyrir Rosengård í hálfleik en Cathinka Tandberg reyndist alltof erfið viðureignar þar sem hún skoraði öll þrjú mörk Hammarby í sigrinum.

Rosengård er löngu búið að tryggja sér Svíþjóðarmeistaratitilinn í ár.

Inter 0 - 0 Juventus

Essen 0 - 2 Wolfsburg

Valerenga 3 - 0 Kolbotn

Linkoping 0 - 2 Kristianstad

Rosengard 2 - 3 Hammarby

Athugasemdir
banner
banner
banner