Newcastle ætlar að bjóða 80 milljónir fyrir Guéhi - Palmer ekki til sölu - Wirtz eftirsóttur - Man Utd vill ráða Amorim - Trent og Frimpong á...
   lau 19. október 2024 17:50
Brynjar Ingi Erluson
Ten Hag: Reiðin var eldsneyti fyrir okkur
Erik ten Hag
Erik ten Hag
Mynd: EPA
Matthijs De Ligt mátti ekki fara inn í teig í horninu þar sem honum blæddi
Matthijs De Ligt mátti ekki fara inn í teig í horninu þar sem honum blæddi
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Erik ten Hag, stjóri Manchester United, var hæstánægður með framlag sinna manna í 2-1 sigrinum á Brentford á Old Trafford í dag, en hann var sérstaklega ánægður með hvernig leikmenn svöruðu í síðari hálfleiknum.

United fór inn í hálfleikinn marki undir eftir að Ethan Pinnock stangaði hornspyrnu gestanna í netið á lokamínútum fyrri hálfleiks.

Umdeilt atvik kom í kringum hornspyrnuna en dómarinn sagði Matthijs De Ligt, varnarmanni United, að fara af velli til að láta huga að meiðslum sínum, en Hollendingnum blæddi. Upp úr því kom markið.

„Við vorum ánægðir með að vinna leikinn. Hjá United verður þú að vinna leikinn, en líka bjóða upp á skemmtun. Ég held að þetta hafi verið notalegt síðdegi fyrir alla og sérstaklega hvernig þetta spilaðist, eftir mjög ósanngjarnt mark. Í seinni hálfleik sýndum við samheldni, áræðni og skoruðum tvö falleg mörk.“

„Við vitum ekki af hverju dómarinn tók einn af okkar leikmönnum af velli á svona mikilvægu augnabliki. Blóðið var storknað og þetta gerðist áður. Síðan á mikilvægu augnabliki í hornspyrnu, sem er þeirra styrkleiki, er einn af okkar bestu skallamönnum tekinn út af og Brentford græddi vel á því. Auðvitað er það pirrandi.“

„Allir voru reiðir en við nýtum það sem eldsneyti. Við byrjuðum hratt í seinni hálfleik og vildum snúa stöðunni við sem við gerðum með tveimur fallegum mörkum,“
sagði Ten Hag.

Leikmenn komu öflugir inn í síðari hálfleikinn og náðu að snúa taflinu við með mörkum frá Alejandro Garnacho og Rasmus Höjlund.

„Það eru alltaf einhverjar smávægilegar breytingar. Við þurftum að fylla betur í svæðin og þá ertu kominn með betri strúktúr þegar það kemur að því að skapa færi, en líka til að pressa til að stjórna leikjum. Við sýndum aðeins betri strúktúr í seinni, en fyrri hálfleikurinn var alls ekki slæmur. Við fengum góð augnablik og bjuggum til góð færi sem við nýttum ekki. Það breyttist í síðari með marki og þá voru allir glaðir. Þú sást hvernig hvatningin og sjálfstraustið óx og það er nákvæmlega það sem liðið þarfnast. Það hefur verið erfitt fyrir okkur að skora síðustu vikur.“

Framtíð Ten Hag hefur mikið verið til umræðu síðustu vikur, en hann segist ekki hugsa um það. Öll einbeiting hans er á liðinu.

„Einbeiting mín er á þessu. Það hefur engin áhrif hvað allir eru að skrifa um mig. Ég get tekið því. Leikmennirnir verða að hugsa um liðsframmistöðuna, hafa rétta vinnusemi og setja allt í þetta. Ég veit að þetta eru frábærir leikmenn og ef þú ert ákveðinn þá munu mörkin koma og sigrarnir í leiðinni.“

Hann fann sig síðan knúinn til þess að hrósa stuðningsmönnum United og telur þá hafa átt stóran þátt í sigrinum.

„Ég er ótrúlega ánægður fyrir hönd stuðningsmanna. Þeir eru alltaf á bak við okkur, jafnvel þó allir eru á móti okkur. Þeir munu alltaf styðja okkur. Við viljum þakka þeim fyrir að standa með okkur og voru þeir ein af ástæðunum fyrir svona frábærri byrjun í síðari hálfleiknum,“ sagði Ten Hag.
Athugasemdir
banner
banner