Man City og Liverpool hafa áhuga á Buonanotte - Bournemouth ætlar ekki að gefa neinn afslátt á Kerkez - Liverpool vill Schlotterbeck - Semenyo til...
banner
   sun 20. október 2024 21:21
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Flautumark hélt vonum HK á lífi - Þriðji sigur KR í röð
Þorsteinn Aron skoraði flautumark fyrir HK
Þorsteinn Aron skoraði flautumark fyrir HK
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Sigurðar skoraði sigurmark KR
Aron Sigurðar skoraði sigurmark KR
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
HK-ingar unnu hádramatískan 2-1 sigur á Fram í Bestu deild karla í Kórnum í kvöld. Þorsteinn Aron Antonsson skoraði sigurmarkið á lokasekúndum leiksins og hélt þannig vonum HK um að halda sæti sínu í deildinni á lífi. KR-ingar unnu á meðan þriðja sigur sinn í röð er liðið lagði fallið lið Fylkis, 1-0, í Árbæ.

Framarar fóru vel af stað í Kórnum. Alex Freyr Elísson kom þeim í forystu eftir tuttugu mínútur. Fred fékk langan bolta á vinstri vænginn, kom með hann fastan inn í teig, framhjá Guðmundi Magnússyni og á fjærstöngina þar sem Alex Freyr var mættur til að skila boltanum í netið.

HK-ingar voru ekki lengi að svara en jöfnunarmarkið kom aðeins tveimur mínútum síðar. Ívar Örn Jónsson kom með flotta fyrirgjöf á Birni Breka Burknason sem kastaði sér fram fyrir varnarmenn Fram og skoraði.

Heimamenn voru betri aðilinn eftir jöfnunarmarkið. Eiður Gauti Sæbjörnsson kom sér í flott skallafæri á 25. mínútu en Ólafur Íshólm Ólafsson varði frábærlega frá honum.

Staðan jöfn í hálfleik en þegar tólf mínútur voru liðnar af síðari átti Arnþór Ari Atlason skot í stöng. Markið hefði þó ekki talið ef hann hefði skorað því búið var að setja flaggið á loft.

Framarar voru ekki langt frá því að komast aftur í forystu þegar hálftími var eftir. Guðmundur gaf hælsendingu á Djenairo Daniels sem ætlaði að setja boltann í fjær en Christoffer Petersen vel á verði í markinu.

HK var hársbreidd frá því að taka forystuna þegar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum er Eiður Gauti stangaði fyrirgjöf George Nunn í átt að marki en Ólafur Íshólm með aðra frábæra vörslu.

Framarar voru nálægt því að stela sigrinum í lokin er Þorri Stefán Þorbjörnsson átti skalla sem Petersen blakaði í slá.

Í uppbótartíma fóru HK-ingar að kasta fleiri mönnum fram. Á lokasekúndunum lúðraði Petersen boltanum fram völlinn og inn á teig Framara þar sem Þorsteinn Aron var mættur og skoraði. Ótrúleg dramatík og lifir vonin fyrir Kópavogsliðið.

Staðan er þannig að HK er í næst neðsta sæti með 25 stig, eins og Vestri, sem er með töluver betri markatölu. HK mætir KR í lokaumferðinni á meðan Vestri spilar við Fylki.

KR ætlar að enda Íslandsmótið með stæl

KR-ingar unnu þriðja leik sinn í röð er liðið lagði Fylki að velli, 1-0, á Würth-vellinum í Árbæ.

Óskar Hrafn Þorvaldsson tók alfarið við liðinu í ágúst og hefur tekist að snúa blaðinu við hjá þeim svarthvítu.

Það tók KR-inga ekki nema tæpar tvær mínútur að skora í kvöld en Aron Sigurðarson gerði markið eftir hornspyrnu. Boltinn kom inn í teiginn og eftir smá klafs fékk Aron boltann, tók tvö skref áður en hann setti boltann í fjærhornið.

KR-ingar voru með ágætis völd á leiknum og ekki batnaði það fyrir Fylki er Nikulás Val Gunnarsson var rekinn af velli eftir klaufaleg mistök í vörninni. Hann fékk boltann frá Ólafi Kristófer Helgasyni, markverði Fylkis, rétt fyrir utan teiginn. Nikulás var allt of lengi á boltanum sem varð til þess að Birgir Steinn Jónsson mætti og stal boltanum og var að komast einn á móti markverði, en Nikulás tók hann niður og uppskar rautt spjald.

Gestirnir fengu færin til að gera út um leikinn í fyrri hálfleik en fóru illa með góðar stöður.

Þeir héldu áfram að skapa sér í þeim síðari. Aron Sigurðar og Benoný Breki Andrésson áttu gott þríhyrningsspil sem endaði með því að Aron var kominn einn gegn markverði en skotið arfaslakt.

Tíu mínútum fyrir leikslok kom Benoný boltanum í netið en markið dæmt af vegna rangstöðu. Theodór Elmar Bjarnason átti sendingu sem fór af varnarmanni og inn fyrir á Benoný, en hann var vel fyrir innan og markið eðlilega dæmt af.

KR fagnaði þriðja sigrinum í röð og er nú með 31 stig í 8. sæti deildarinnar en Fylkir á botninum með 18 stig.

HK 2 - 1 Fram
0-1 Alex Freyr Elísson ('20 )
1-1 Birnir Breki Burknason ('22 )
2-1 Þorsteinn Aron Antonsson ('98 )
Lestu um leikinn

Fylkir 0 - 1 KR
0-1 Aron Sigurðarson ('4 )
Rautt spjald: Nikulás Val Gunnarsson, Fylkir ('28) Lestu um leikinn
Besta-deild karla - Neðri hluti
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    KA 26 9 7 10 40 - 47 -7 34
2.    KR 26 8 7 11 49 - 49 0 31
3.    Fram 26 8 6 12 37 - 45 -8 30
4.    Vestri 26 6 7 13 31 - 50 -19 25
5.    HK 26 7 4 15 34 - 64 -30 25
6.    Fylkir 26 4 6 16 29 - 59 -30 18
Athugasemdir
banner
banner
banner