Newcastle ætlar að bjóða 80 milljónir fyrir Guéhi - Palmer ekki til sölu - Wirtz eftirsóttur - Man Utd vill ráða Amorim - Trent og Frimpong á...
   lau 19. október 2024 20:29
Brynjar Ingi Erluson
Staðfestir að það sé ekkert pláss fyrir Pogba - „Þurftum að fjárfesta í öðrum leikmönnum“
Paul Pogba hefur líklega spilað sinn síðasta leik í treyju Juventus
Paul Pogba hefur líklega spilað sinn síðasta leik í treyju Juventus
Mynd: EPA
Cristiano Giuntoli, yfirmaður íþróttamála hjá Juventus, hefur staðfest að franski miðjumaðurinn Paul Pogba sé ekki í myndinni hjá félaginu og nú verði leitað lausna en þetta sagði hann fyrir leik Juventus og Lazio í kvöld.

Pogba hefur ekkert spilað með Juventus síðan í byrjun síðasta tímabils, en hann féll á lyfjaprófi og var dæmdur í fjögurra ára bann eftir að testósterón-gildi hans mældust of hátt.

Frakkinn drakk drykk sem innihélt ólöglegt fæðubótarefni, en hann áfrýjaði dómnum til íþróttadómstólsins, CAS, sem lækkaði refsingu hans niður í átján mánuði.

Hann má því byrja að æfa í janúar og spila í mars. Pogba kom fram í fjölmörgum viðtölum á dögunum þar sem hann sagðist ekki hafa áhuga á því að yfirgefa Juventus og að hann vildi berjast fyrir sæti sínu þar, en það virðist hreinlega ekki í boði.

„Staða okkar er skýr þegar það kemur að Pogba. Hann var frábær leikmaður, en hann var því miður frá of lengi. Við þurftum að fjárfesta í öðrum leikmönnum og nú er hópurinn klár,“ sagði Giuntoli við DAZN

Talið er að Juventus reyni að semja við Pogba um riftun en það er alveg ljóst að áhuginn er mikill. AC Milan, Barcelona, Marseille og félög í Sádi-Arabíu eru sögð á eftir honum og líklegt að fleiri félög muni bætast við listann eftir þessi ummæli Giuntoli.
Athugasemdir
banner