Man City og Liverpool hafa áhuga á Buonanotte - Bournemouth ætlar ekki að gefa neinn afslátt á Kerkez - Liverpool vill Schlotterbeck - Semenyo til...
   sun 20. október 2024 13:20
Ívan Guðjón Baldursson
Kærði Nani fyrir þjófnað
Mynd: Estrela da Amadora
Mynd: Getty Images
Það var afar furðulegt atvik sem átti sér stað á dögunum þegar hinn 37 ára gamli Nani var ásakaður um að hafa stolið treyju af stuðningsmanni.

Nani leikur fyrir Estrela Amadora í Portúgal og átti atvikið sér stað fyrir utan leikvanginn þar sem Nani sat í bílstjórasæti bifreiðar sinnar.

Stuðningsmaður var með landsliðstreyju Portúgal númer 17, merkta Nani, og vildi fá eiginhandaráritun frá stórstjörnunni.

Þess í stað tóku mennirnir að rífast þar sem Nani sagði að þetta væri stolin treyja. Hann hélt því fram að treyjunni hafði verið stolið úr húsi sínu, tók hana af stuðningsmanninum og keyrði burt.

Stuðningsmaðurinn ákvað því að fara með málið á samfélagsmiðla, þar sem það hefur vakið mikla athygli. Hann segist hafa keypt treyjuna fyrir nokkrum vikum á internetinu og telur fráleitt að henni hafi verið stolið frá Nani sjálfum.

„Ég var í algjöru sjokki þegar atvikið átti sér stað, en í kringum mig var mikið af vitnum. Einhverjir náðu þessu öllu á myndband og buðust til að vera vitni fyrir mig ef ég ætlaði með þetta mál til lögreglunnar," segir stuðningsmaðurinn meðal annars.

„Ég fór til lögreglunnar eftir atvikið til að láta gera skýrslu. Ég ætla mér að fá treyjuna til baka, eða í það minnsta peninginn sem hún kostaði mig.

„Ég er miður mín útaf þessu atviki. Hvað finnst ykkur að ég ætti að gera?"

Athugasemdir
banner
banner