Man City og Liverpool hafa áhuga á Buonanotte - Bournemouth ætlar ekki að gefa neinn afslátt á Kerkez - Liverpool vill Schlotterbeck - Semenyo til...
   sun 20. október 2024 08:00
Brynjar Ingi Erluson
Messi með þrennu er Inter Miami náði sögulegu afreki - Verða með á HM félagsliða
Mynd: Getty Images
Lionel Messi skoraði þrennu er Inter Miami fór illa með New England Revolution, 6-2, í lokaumferð MLS-deildarinnar í nótt. Sigurinn færði Inter Miami sæti í HM félagsliða, sem fer fram næsta sumar.

Messi fór hamförum með argentínska landsliðinu í vikunni og fylgdi því síðan á eftir með annarri stjörnuframmistöðu.

Miami lenti tveimur mörkum undir en Luis Suarez jafnaði metin með tveimur mörkum á þremur mínútum.

Í síðari hálfleik kom Messi inn af bekknum á 58. mínútu, skoraði þrennu á ellefu mínútum og tryggði um leið sögulegt afrek, en ekkert lið í MLS-deildinni hefur fengið jafn mörg stig á einu tímabili. Inter Miami fékk 74 stig, sem er þremur meira en fyrra metið, sem var í eigu New England.

Þá var tilkynnt að Inter Miami mun taka sæti MLS-deildarinnar í HM félagsliða sem fer fram næsta sumar.

Messi skoraði 20 mörk og lagði upp 17 í deildinni á þessu tímabili, en hann var annar markahæsti leikmaðurinn þetta árið. Núna tekur við úrslitakeppni en úrslitaleikurinn fer fram í byrjun desember.

Dagur Dan Þórhallsson var í byrjunarliði Orlando City sem tapaði fyrir Atlanta City, 2-1. Orlando er þegar búið að tryggja sig áfram í úrslitakeppnina, en liðið hafnaði í 4. sæti Austur-deildarinnar.

Nökkvi Þeyr Þórisson kom inn af bekknum og spilaði síðustu tuttugu mínúturnar er St. Louis tapaði fyrir Minnesota United, 4-1, í Vestur-deildinni. St Louis hafnaði í 12. sæti með 37 stig en það dugði ekki til að komast í umspil.


Athugasemdir
banner