Danski sóknarleikmaðurinn Martin Braithwaite er á leið til Grêmio í brasilíska boltanum eftir að hafa losnað undan samningi við Espanyol á dögunum.
Braithwaite átti frábært tímabil í treyju Espanyol þar sem hann var markahæstur í næstefstu deild á Spáni, en þrátt fyrir það tókst liðinu ekki að koma sér aftur upp í efstu deild og fékk sóknarmaðurinn að rifta samningi sínum.
Útlit var fyrir að Braithwaite myndi að skrifa undir samning við Olympiakos og var hann staddur í Grikklandi á dögunum, þegar hlutirnir breyttust skyndilega.
Ekkert varð úr félagaskiptunum til Grikklands þrátt fyrir að búið væri að bóka læknisskoðun í Aþenu og því sneri Braithwaite aftur heim til Spánar en stoppaði stutt þar áður en hann hélt aftur út á flugvöll.
Í þetta sinn flaug hann til Brasilíu, þar sem hann er að ganga til liðs við Grêmio á tveggja ára samningi. Fabrizio Romano greinir frá og hefur sett „here we go!" stimpilinn sinn á skiptin.
Braithwaite gæti reynst gífurlega mikilvægur leikmaður fyrir Grêmio sem er í fallbaráttu í efstu deild í Brasilíu.
Braithwaite er 33 ára gamall og hefur skorað 10 mörk í 69 landsleikjum fyrir Danmörku.
Athugasemdir