Davies fer líklega til Real Madrid - Liverpool ræðir við Díaz - Varnarmaður Arsenal til Ítalíu?
   sun 22. september 2024 20:42
Ívan Guðjón Baldursson
Arteta ósáttur með dómgæsluna: Fáránlegt ósamræmi
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mikel Arteta þjálfari Arsenal var afar ósáttur með rauða spjaldið sem Leandro Trossard fékk í 2-2 jafntefli gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Arsenal var með 1-2 forystu á Etihad leikvanginum þegar Trossard fékk seinna gula spjaldið sitt seint í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Trossard var dæmdur brotlegur og sparkaði boltanum í burtu eftir að Michael Oliver dómari flautaði. Oliver gaf Trossard gult spjald fyrir að sparka boltanum í burtu, en það var hans annað gula spjald í hálfleiknum. Arteta kom Belganum til varnar í viðtali að leikslokum og talaði um hrikalegt ósamræmi í dómgæslu í enska boltanum.

Spænski þjálfarinn segist vera gríðarlega hissa, sérstaklega eftir svipað atvik sem gerðist í 1-1 jafntefli Arsenal gegn Brighton fyrr á tímabilinu þegar Declan Rice var rekinn af velli.

Arteta benti á að Jeremy Doku hafi ekki fengið gult spjald þegar hann sparkaði boltanum í burtu eftir að hafa verið dæmdur brotlegur í fyrri hálfleik og talaði um hvernig það sama var uppi á teningnum í leiknum gegn Brighton, þar sem Joao Pedro slapp við gult spjald fyrir sama athæfi áður en Rice var rekinn af velli.

„Við vorum 2-1 yfir en svo gerast tvö keimlík atvik með stuttu millibili en aðeins einum aðila er refsað. Niðurstaðan er sú að við missum mann af velli og erum neyddir til að spila seinni hálfleik sem enginn fótboltaáhugamaður vill horfa á," sagði Arteta við fréttamenn eftir lokaflautið.

„Ég held að flestir áhorfendur séu sammála um að það sé ekki leiknum til framdráttar að gefa seinna gult spjald fyrir svona atvik. Þetta er í annað sinn sem þetta gerist í fimm leikjum og ef þetta er eitthvað sem er komið til að vera í úrvalsdeildinni þá veldur það mér miklum áhyggjum.

„Það líður minna en ein sekúnda frá því að dómarinn flautar og Trossard sparkar í boltann. Til samanburðar þá leið meira en sekúnda á milli þess þegar dómarinn flautaði og Doku sparkaði boltanum burt fyrr í leiknum. Samt fékk hann ekkert spjald."


Tíu leikmenn Arsenal vörðust hetjulega í síðari hálfleik og héldu forystunni allt þar til á síðustu sekúndunum, þegar John Stones skoraði eftir atgang innan vítateigs í kjölfar hornspyrnu.

„Þetta var ómögulegt í seinni hálfleik. Þetta var alveg nógu erfiður leikur 11 gegn 11 en einum leikmanni færri var þetta ekki hægt. Við þurftum að verjast með alla fyrir aftan boltann og ég er ótrúlega stoltur af baráttunni sem strákarnir sýndu.

„Þeir vörðust gríðarlega vel en fengu svo mark á sig því við þurftum að spila í 97 mínútur sem urðu svo 99."

Athugasemdir
banner
banner