Davies fer líklega til Real Madrid - Liverpool ræðir við Díaz - Varnarmaður Arsenal til Ítalíu?
   sun 22. september 2024 21:09
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Fylkir áfram á botninum eftir tap gegn Fram
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fram 2 - 0 Fylkir
1-0 Alex Freyr Elísson ('23)
2-0 Magnús Þórðarson ('43)

Lestu um leikinn: Fram 2 -  0 Fylkir

Fram og Fylkir áttust við í seinni leik dagsins í Bestu deild karla og úr varð mikil skemmtun í fallbaráttuslagnum.

Fylkismenn byrjuðu af krafti og áttu tvær marktilraunir sem höfnuðu í stönginni á fyrstu 20 mínútum leiksins. Fyrst skallaði Orri Sveinn Segatta boltann í stöngina á tíundu mínútu, áður en Sigurbergur Áki Pálsson skaut í innanverða stöngina af 25 metra færi og fór boltinn naumlega framhjá hinni stönginni.

Það voru þó heimamenn í Fram sem tóku forystuna skömmu síðar og í þetta sinn fór boltinn í stöngina og inn. Fred Saraiva gaf sendingu á Alex Freyr Elísson sem hamraði boltanum í fjærhornið.

Árbæingar sóttu og komust í fínar stöður en tókst ekki að skapa góð færi, heldur voru það Framarar sem skoruðu næsta mark og aftur kom það gegn gangi leiksins. Markið kom eftir langan bolta upp völlinn sem Birkir Eyþórsson réði ekki við. Birkir tapaði boltanum til Guðmundar Magnússonar, sem lagði upp fyrir Magnús Þórðarson og staðan orðin 2-0.

Fram gerði vel að drepa í leiknum í síðari hálfleik þar sem gerðist afar lítið marktækt. Hvorugu liði tókst að bæta við marki þar sem Fylkismenn nýttu sér ekki þær fjölmargar hornspyrnur sem þeir fengu á Lambhagavellinum.

Fram er með 30 stig eftir þennan sigur, ellefu stigum frá fallsæti. Fylkir er áfram á botni deildarinnar með 17 stig, þremur stigum frá HK í öruggu sæti.
Athugasemdir
banner
banner