Eddie Howe, aðalþjálfari Newcastle United, segist ekki hafa áhyggjur af kantmanninum öfluga Anthony Gordon þrátt fyrir mislukkuð félagaskipti hans til Liverpool í seinni hluta júní mánaðar.
Gordon, 23 ára, er vinstri kantmaður að upplagi en er afar fjölhæfur leikmaður og getur spilað í flestum stöðum í sóknarlínunni.
Hann var partur af enska landsliðshópnum sem endaði í öðru sæti á EM í Þýskalandi í sumar en fékk ekki að spreyta sig nema í nokkrar mínútur á mótinu.
Gordon er enn í sumarfríi og fer ekki með Newcastle í æfingaferð til Japan, aðeins mánuði eftir að fyrirhuguð félagaskipti hans til Liverpool urðu að engu.
Í sumar þurfti Newcastle að þéna 60 milljónir punda fyrir júní/júlí mánaðamótin til að standast fjármálareglur enska fótboltasambandsins og var nálægt því að neyðast til að selja Gordon til Liverpool til að standast reglurnar og forðast möguleg refsistig.
Gordon var með bókaða læknisskoðun hjá Liverpool en ekkert varð úr skiptunum eftir að Newcastle tókst að selja Elliot Anderson til Nottingham Forest og Yankuba Minteh til Brighton fyrir samanlagt svipaða upphæð og hefði komið inn fyrir Gordon.
Gordon er talinn hafa verið gríðarlega spenntur fyrir þessum félagaskiptum, verandi frá Liverpool og hafandi alist upp sem mikill stuðningsmaður félagsins.
„Anthony er svo mikilvægur partur af því sem við erum að gera hjá Newcastle," segir Howe. „Við höfum átt samræður í sumar og ég hef engar áhyggjur af hugarástandinu hans. Þetta er frábær drengur sem er fagmaður fram í fingurgóma. Hann er einn af okkar bestu leikmönnum og við viljum ekki missa hann.
„Við vildum ekki heldur missa Yankuba og Elliot, af hverju ættum við að vilja selja ungu leikmennina okkar? Við þurftum að gera það útaf fjármálareglunum. Það var sárt að selja þá, mér leið eins og það væri rangt."
Gordon átti frábært tímabil með Newcastle á síðustu leiktíð, þar sem hann skoraði 11 mörk og gaf 10 stoðsendingar í 35 úrvalsdeildarleikjum.
Athugasemdir