Búið er að draga í riðlana fyrir heimsmeistaramótið í kvennafótbolta sem verður haldið í Ástralíu og Nýja-Sjálandi næsta sumar.
Evrópumeistararnir frá Englandi eru í áhugaverðum riðli með Danmörku og Kína en það á eftir að ákvarða fjórða liðið. Eitt af Senegal, Haítí og Síle verður með í þessum erfiða riðli.
Kína er á fimmtánda sæti heimslistans og fékk silfurverðlaun á HM 1999. Til samanburðar er England í fjórða sæti heimslistans og Danmörku átjánda sæti, en Danir hrepptu silfrið á EM 2017.
„Ef við spilum eins vel og við getum þá komumst við upp úr þessum riðli. Við þekkjum danska liðið vel á meðan það kínverska er mistækt, þær eiga stundum frábæra leiki og stundum ekki svo frábæra leiki," segir Sarina Wiegman, landsliðsþjálfari Englendinga.
Ísland var hársbreidd frá því að komast á HM en tapaði að lokum umspilsleik gegn Portúgal. Portúgalska liðið er þó ekki enn búið að tryggja sér þátttökurétt á HM því það á eftir að ganga í gegnum lokahindrun - sem íslenska liðið hefði ekki þurft að ganga í gegnum með sigri í Portúgal.
Takist Portúgölum að sigra lokahindrunina endar liðið í erfiðum E-riðli ásamt ríkjandi heimsmeisturum Bandaríkjanna og fyrrum Evrópumeisturum Hollands, auk Víetnam.
A-riðill:
Nýja-Sjáland
Noregur
Filippseyjar
Sviss
B-riðill:
Ástralía
Írland
Nígería
Kanada
C-riðill:
Spánn
Kosta Ríka
Sambía
Japan
D-riðill:
England
Senegal/Haítí/Síle
Danmörk
Kína
E-riðill:
Bandaríkin
Víetnam
Holland
Kamerún/Taíland/Portúgal
F-riðill:
Frakkland
Jamaíka
Brasilía
Taívan/Paragvæ/Papúa Nýja-Gínea/Panama
G-riðill:
Svíþjóð
Suður-Afríka
Ítalía
Argentína
H-riðill:
Þýskaland
Marokkó
Kólumbía
Suður-Kórea