Thomas Frank, knattspyrnustjóri Brentford, útilokar að hann muni taka við stjórastarfinu sem var að losna hjá Aston Villa.
Frank er einn af mörgum sem hefur verið orðaður við starfið eftir að Steven Gerrard var rekinn en Daninn segist ekki vilja hætta hjá Brentford.
„Ég skil hvers vegna veðbankarnir gefa mér miklar líkur á að taka við starfinu þarna, það er útaf því að ég er mjög góður knattspyrnustjóri," sagði Frank og glotti.
„Málið er bara að ég er mjög ánægður hjá Brentford og á enn eftir að ná mikilvægum markmiðum hérna."
Frank segist trúa að besta leiðin í flestum tilfellum sé að gefa knattspyrnustjóranum tækifæri til að sanna sig þó það gangi illa yfir einhvern tíma.
„Ég hef alltaf mikla trú á því að halda sama stjóranum í langan tíma, sama hvernig gengur á fyrstu árunum. Villa sýndu frábæran fótbolta á köflum í haust en heppnin var ekki með þeim. Stuðningsmenn Villa vildu láta reka stjórann og þeir fengu ósk sína uppfyllta. Núna geta þeir ekki kennt neinum um nema leikmönnunum ef illa gengur í næstu leikjum."
Hinn 49 ára gamli Frank hefur verið við stjórnvölinn hjá Brentford í fjögur ár en hann var fyrst ráðinn til félagsins sem aðstoðarþjálfari í desember 2016. Þar áður var hann aðalþjálfari Bröndby í heimalandinu.