Real Madrid vill Enzo og Huijsen - Liverpool, Arsenal og Man Utd hafa áhuga á Gibbs-White - Sane orðaður við Liverpool
banner
   sun 23. október 2022 08:20
Ívan Guðjón Baldursson
Fyrirliði Brentford vill spila fyrir Malmö
Jansson á 103 leiki að baki fyrir Brentford.
Jansson á 103 leiki að baki fyrir Brentford.
Mynd: EPA

Sænska stórveldið Malmö hefur ekki átt gott tímabil, hvorki í Svíþjóð né í Evrópu, og er strax byrjað að huga að styrkja hópinn fyrir næsta ár.


Tveir gamlir leikmenn félagsins eru líklegir til að snúa aftur til Malmö fyrir næstu leiktíð og er einn þeirra í ensku úrvalsdeildinni.

Pontus Jansson, 31 árs, rennur út á samningi hjá Brentford næsta sumar en félagið hefur möguleika um að framlengja samninginn um eitt ár.

Jansson er mikilvægur hlekkur í varnarlínu Brentford þegar hann er ekki fjarverandi vegna meiðsla og skoraði 3 mörk í 37 leikjum á síðustu leiktíð.

Hann er fyrrum landsliðsmaður Svía en lagði skóna á hilluna fyrir tveimur árum, eftir aðeins 27 keppnisleiki fyrir Svíþjóð.

Aftonbladet greinir frá því að Jansson, sem var hjá Malmö í fimm ár áður en hann skipti til Torino á Ítalíu, vilji ólmur snúa aftur heim til Malmö. Þar er einnig greint frá því að Malmö sé búið að ræða við umboðsmann Jansson um samningsmál.

Brentford vill ekki missa fyrirliðann frá sér og gæti tekist að sannfæra Jansson um að vera áfram í eitt ár eins og samningsákvæðið hans segir til um. Hann mun því ganga í raðir Malmö næsta eða þarnæsta sumar samkvæmt miðlum í Danmörku og Svíþjóð.

Jansson er ekki eini leikmaðurinn sem vill snúa aftur til Malmö því Anton Tinnerholm vill einnig snúa aftur heim eftir sex ár með New York City FC í Bandaríkjunum.

Tinnerholm er 31 árs varnarmaður með 9 landsleiki að baki fyrir Svíþjóð. Hann á yfir 100 leiki að baki fyrir Malmö og New York og verður falur á frjáslri sölu.


Athugasemdir
banner
banner
banner