Real Madrid vill Enzo og Huijsen - Liverpool, Arsenal og Man Utd hafa áhuga á Gibbs-White - Sane orðaður við Liverpool
   sun 23. október 2022 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Neville vill losna við Ronaldo - Keane kemur til varnar
Mynd: EPA

Gary Neville og Roy Keane, fyrrum samherjar hjá Manchester United, ræddu um Cristiano Ronaldo eftir 1-1 jafntefli Manchester United á útivelli gegn Chelsea í gær.


Ronaldo var ekki í leikmannahópi Rauðu djöflanna þar sem hann er í agabanni eftir að hafa neitað að koma inná á lokamínútunum í 2-0 sigri Man Utd gegn Tottenham í vikunni. Ronaldo hefur verið að æfa einn og með varaliðinu og verður ekki hleypt aftur í aðalhópinn fyrr eftir helgi.

Neville telur rétt skref fyrir Man Utd vera að losa sig við Ronaldo sem fyrst en Keane er ekki sammála.

„Það verður að útkljá þetta mál sem fyrst. Þeir verða að leysa þetta," sagði Neville í beinni útsendingu á Sky Sports. „Ég held að það séu ekki margir stuðningsmenn Manchester United sem myndu velja Ronaldo í byrjunarliðið sitt eins og staðan er í dag. Liðið er betra án hans, þeir skora meira án hans og vinna fleiri stig án hans. Man Utd er betra lið án hans."

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Man Utd, sagði í viðtali eftir jafnteflið að Rauðu djöflarnir þyrftu á kröftum Ronaldo að halda. Ten Hag lítur enn á Ronaldo sem mikilvægan leikmann, enda er Portúgalinn einn af helstu markaskorurum fótboltasögunnar.

„Þetta var í annað sinn sem Ronaldo yfirgefur völlinn á undan liðsfélögunum og það er algjörlega óásættanlegt. Fyrst að liðið er betra án hans þá finnst mér eina í stöðunni að enda þetta samband. Félagið þarf að setjast niður með Ronaldo og komast að samkomulagi um starfslok. Cristiano er alltof stórkostlegur leikmaður og karakter fyrir þetta og félagið þarf að horfa fram á veginn.

„Ronaldo getur ekki samþykkt að hann er ekki lengur stjarnan í liðinu og þess vegna þarf hann að skipta um félag. Það er einfalt."

Keane ákvað að taka upp hanskann fyrir Ronaldo og reyndi að nálgast málið frá sjónarhorni leikmannsins.

„Hann er augljóslega kominn með nóg og það lét hann missa hausinn. Þetta er eitthvað sem hefur verið að malla undanfarnar vikur eða mánuði. Ég ætla að koma honum til varnar, þetta er manneskja eftir allt saman og hann er með galla eins og allir aðrir. Hann er pirraður að fá ekki tækifæri og mælirinn er fullur. Þetta er ekki það versta sem leikmaður Manchester United hefur gert, svona kemur fyrir. Við erum öll mennsk.

„Fólk er að reyna að segja að frammistaðan gegn Tottenham hafi verið sú besta hjá liðinu á tímabilinu en það er algjört kjaftæði. Tottenham spilaði hrikalega illa og veitti enga mótspyrnu. Á síðustu leiktíð skoraði Ronaldo þrennu í sigri gegn Tottenham á Old Trafford.

„Ronaldo er allavega ekki að þykjast. Það er fullt af þykjustu fólki í fótboltaheiminum en hann er ekki einn af þeim. Þetta væri öðruvísi ef hann sæti á bekknum hlæjandi eins og honum væri alveg sama en þetta er ekki þannig. Hann þarf að spila fótbolta.

„Hann er að verða 38 ára gamall en vill vera bestur í heimi. Hann skorar á tveggja eða þriggja leikja fresti og í dag náði liðið jafntefli og leikmenn fögnuðu að leikslokum eins og þeir hefðu unnið deildina. Man Utd er í fimmta sæti. Þeir unnu gegn Spurs um kvöldið og héldu að þeir hefðu unnið Meistaradeildina. Ronaldo skoraði þrennu gegn þeim á síðustu leiktíð. Ef þú ert með leikmann sem skorar í öðrum hverjum leik þá er mér sama hvað hann er gamall, ég vill hafa hann í liðinu mínu."


Athugasemdir
banner
banner