Liverpool tilbúið að reyna við Rodrygo ef Salah fer - Everton horfir til Sarri - Man Utd mun reyna aftur við Branthwaite
banner
   fim 26. september 2024 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Vita ekki hvenær Neymar snýr aftur
Mynd: Al-Hilal
Mynd: EPA
Brasilíska stórstjarnan Neymar hefur verið frá vegna meiðsla í tæpt ár eftir slæmt krossbandsslit í október í fyrra.

Stefnan var sett á endurkomu á fótboltavöllinn í ágúst en það stóðst ekki og nú er september að taka enda en Neymar er enn fjarverandi vegna meiðsla þó hann hafi mætt aftur til æfinga í júlí.

Neymar leikur fyrir Al-Hilal í Sádi-Arabíu og hefur verið ein af skærustu stjörnum fótboltaheimsins síðustu tíu ár.

„Neymar er gríðarlega mikilvægur leikmaður fyrir þetta lið og sádi-arabísku deildina en við vitum ekki hvenær hann mun ná sér fullkomlega af meiðslunum. Við munum skoða stöðuna betur í janúar," segir Jorge Jesus, þjálfari Al-Hilal sem trónir á toppi sádi-arabísku deildarinnar.

Neymar á aðeins tæpt ár eftir af samningi við Al-Hilal og er ekki gjaldgengur með liðinu í sádi-arabísku deildina fyrr en eftir áramót, þegar það opnar aftur fyrir félagaskiptagluggann og verður hægt að skrá nýja leikmenn í hóp í deildarkeppnum.

Al-Hilal ákvað að nýta pláss Neymar í hópnum fyrir Marcos Leonardo, sem var fenginn til félagsins frá Benfica í september. Óljóst er hvaða leikmaður mun víkja fyrir Neymar þegar hann verður skráður í leikmannahópinn í janúar.

Félagslið í Sádi-arabísku deildinni mega aðeins hafa 8 erlenda leikmenn, sem hafa náð 21 árs aldri, skráða til leiks. Neymar er sá níundi sem stendur.
Athugasemdir
banner
banner
banner