Arsenal vill Vlahovic - Howe orðaður við Man Utd - United hefur enn áhuga á Sesko
   mið 25. september 2024 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Bloomfield ósáttur: Átti aldrei að vera víti
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Unai Emery, þjálfari Aston Villa, svaraði spurningum eftir nauman sigur Aston Villa á útivelli gegn Wycombe Wanderers í 32-liða úrslitum enska deildabikarsins í gærkvöldi.

Staðan var markalaus eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik en Villa komst í tveggja marka forystu í seinni hálfleik.

Heimamenn í Wycombe, sem leikur í League One, voru óheppnir að skora ekki mark fyrr en í uppbótartíma. Lokatölur urðu 1-2 fyrir Aston Villa eftir jafna og spennandi viðureign.

„Það er alltaf erfitt að spila útileiki í svona keppni gegn smærri liðum. Þetta eru leikmenn sem fá ekki oft tækifæri til að reyna sig gegn liðum úr ensku úrvalsdeildinni og koma þess vegna inn í svona leiki með frábært hugarfar. Þeir hafa engu að tapa og fá auk þess tækifæri til að sanna sig fyrir heiminum," sagði Emery eftir sigurinn nauma.

„Þetta var erfiður leikur en ég er ánægður því margir ungir leikmenn fengu tækifæri og við unnum."

Matt Bloomfield, þjálfari Wycombe, var ekki sáttur með dómgæsluna að leikslokum. Staðan var 0-1 fyrir Aston Villa og fengu gestirnir dæmda vítaspyrnu á 85. mínútu sem Jhon Durán skoraði úr.

„Ég er mjög stoltur af þessari frammistöðu og við vorum óheppnir að fá ekki meira út úr þessari viðureign," sagði Bloomfield.

„Ég er nýbúinn að horfa aftur á vítaspyrnudóminn og það er nokkuð augljóst að þetta átti aldrei að vera víti. Þetta er mjög svekkjandi fyrir okkur vegna þess að við hefðum farið beint í vítaspyrnukeppni með jafntefli. Það er leiðinlegt að þessi ákvörðun hafi eyðilagt frábært kvöld fyrir okkur þar sem við spiluðum frábærlega og hefðum átt skilið að fá vítaspyrnukeppni."
Athugasemdir
banner
banner