Arsenal vill Vlahovic - Howe orðaður við Man Utd - United hefur enn áhuga á Sesko
   mið 25. september 2024 17:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Kári Sigfússon: Langþráður draumur að rætast
Lengjudeildin
Kári hefur spilað frábærlega með Keflavík að undanförnu. Hann ræðir um sumarið hjá sér í seinni hluta viðtalsins.
Kári hefur spilað frábærlega með Keflavík að undanförnu. Hann ræðir um sumarið hjá sér í seinni hluta viðtalsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Joey trommar Keflvíkinga áfram á laugardag.
Joey trommar Keflvíkinga áfram á laugardag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta leggst bara helvíti vel í mig. Við erum að undirbúa okkur núna í vikunni og hópurinn er sterkur. Við erum brattir og mjög spenntir fyrir þessum leik," segir Kári Sigfússon, leikmaður Keflavíkur, við Fótbolta.net í dag.

Keflavík er á leið í úrslitaleik umspilsins í Lengudeildinni. Annað hvort Afturelding eða Keflavík spilar í Bestu deildinni á næsta ári, það ræðst á laugardag hvort liðið fer upp í efstu deild.

Mættu á hælunum í seinni leikinn
Keflavík sló út ÍR í undanúrslitum umspilsins með því að vinna 1-4 á útivelli og tapa 2-3 heima í leik sem ÍR náði að komast í 0-3 og jafna einvígið.

„Þetta var virkilega erfitt, ÍR er með gott lið og þeir gáfu okkur leiki í báðum leikjunum. Þeir voru nálægt því að minnka muninn í fyrri leiknum og svo nálægt því að vinna í seinni leiknum. Þetta var eins og við bjuggumst við, sama hvernig staðan var þá gáfu þeir alltaf hörku mótspyrnu og þetta var erfitt alveg fram að lokaflautinu í seinni leiknum."

„Við vorum á hælunum fyrstu 30 mínúturnar og einvígið orðið jafnt. ÍR-ingarnir mættu með fullt af orku, gerðu nokkrar breytingar sem voru vel heppnaðar og skilaði sér með þremur mörkum. Við vorum kannski aðeins of þægilegir."

„Það er auðvitað aðeins meira í húfi í svona leikjum en venjulegum deildarleikjum. Við gerum okkur grein fyrir því að ef leikirnir tapast þá ertu úr leik."


Klúbbur sem á heima í efstu deild
Það hefur gengið vel hjá Keflavík eftir erfiða byrjun í Lengjudeildinni. Liðinu gekk vel í Mjólkurbikarnum en gekk erfiðlega að setja stig á töfluna í deildinni.

„ Við sýndum það seinni hluta tímabilsins að hver leikur var úrslitaleikur, vorum í 7. sæti held ég þegar mótið var hálfnað. Við spiluðum í raun eins í leikjunum gegn ÍR og í deildarleikjunum þar á undan því það hefur alltaf verið mjög mikið í húfi."

„Það er ógeðslega mikil stemning í þessum klefa, allt ótrúlega skemmtilegir strákar og maður hlakkar bara til að mæta á æfingu á hverjum degi. Þjálfararnir eru virkilega skemmtilegir og eru með klefann í teskeið. Sama hvað gekk á í byrjun tímabils, þá héldum við alltaf haus og vissum að við myndum sækja okkar stig. Klefinn er þannig að það er ekkert í boði að mæta í fýlu í hann. Það skipti ekki máli hvernig gekk, við vorum alltaf bara sprækir."

„Markmiðið var auðvitað að fara aftur upp. Hópurinn er þannig og Keflavík sem klúbbur á bara heima í efstu deild. Útlitið var grátt á tímabili en við settum stefnuna á umspil og það er það sem við náðum."


Keflavík vann báða leikina í sumar
Keflavík endaði í 2. sæti Lengjudeildarinnar í sumar og Afturelding endaði í 4. sæti.

„Það er mjög spennandi að fá Aftureldingu. Þeir fóru á Laugardalsvöll í fyrra og eru með þá reynslu. En að sama skapi erum við með fullt af reynsluríkum leikmönnum og einhverjir spilað úrslitaleik á Laugardalsvelli. Það skiptir engu máli hverjum við mætum, við munum mæta þeim á okkar forsendum. Við unnum Aftureldingu í báðum leikjunum í sumar og þetta verður væntanlega virkilega spennandi."

„Við þurfum allir að sinna okkar vinnu. Þeir eru með geggjaða leikmenn í hverri stöðu. En ef hver og einn í okkar liði sinnir sinni vinnu, þá ættum við að skila þessu til Keflavíkur."


Trommarinn mætir
Joey Drummer er lykilmaður í stuðningsmannasveit Keflavíkur. Kári er að sjálfsögðu búinn að heyra í trommaranum geðþekka.

„Ég sendi á hann og hrósaði honum fyrir frammistöðuna gegn ÍR. Hann ætlar að ræsa út Ölver fyrir leikinn á laugardaginn og fá sína menn með sér í lið."

Draumur að rætast
„Það er langþráður draumur að rætast, að fá að labba út á Laugardalsvöll og spila leik. Auðvitað mun fylgja smá stress með, en svo verður þetta bara ógeðslega gaman. Maður verður að muna að njóta því maður fær þetta ekkert í hverjum leik," segir Kári.

Leikurinn á laugardag fer fram á Laugardalsvelli og hefst klukkan 14:00.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner