Liverpool tilbúið að reyna við Rodrygo ef Salah fer - Everton horfir til Sarri - Man Utd mun reyna aftur við Branthwaite
   fim 26. september 2024 12:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Hefur unnið sig upp pýramídann - „Kannski öðruvísi leið en margir"
Lengjudeildin
Kári og Haraldur Freyr þjálfari Keflavíkur.
Kári og Haraldur Freyr þjálfari Keflavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það er frábært að hafa fengið tækifærið hér'
'Það er frábært að hafa fengið tækifærið hér'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári í baráttunni gegn ÍR.
Kári í baráttunni gegn ÍR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári Sigfússon er uppalinn í Fylki en hefur á sínum ferli einnig leikið með Gróttu, Elliða, Þrótti Vogum og nú Keflavík.

Hann hefur leikið frábærlega að undanförnu og á stóran þátt í því að Keflavík er komið í úrslitaleik umspilsins í Lengjudeildinni. Á laugardag mætir Keflavík liði Aftureldingar í úrslitaleik á Laugardalsvelli um sæti í Bestu deildinni.

Kári er 22 ára sóknarmaður sem skoraði 10 mörk í 14 leikjum með Þrótti í fyrra. Hann kláraði ekki tímabilið þar sem hann fór í háskóla í Bandaríkjunum.

Hann ræddi við Fótbolta.net í gær um gott gengi að undanförnu og tröppuganginn síðustu tvö ár.

„Ég fíla mig mjög vel hérna. Þetta er í fyrsta skiptið í langan tíma sem ég er í klúbbi þar sem umgjörðin er geggjuð. Þetta hefur bara verið frábært fyrir mig, byrjaði vissulega brösuglega, var í meiðslum en svo hef ég náð að stimpla mig ágætlega inn."

„Það hefur margt gengið upp hjá mér að undanförnu og hjá liðinu líka. Við erum allir að ná að spila saman sem er frábært."

„Ég held að leikmenn í kringum mig hafi lært meira og meira inn á mig og ég á þá. Í byrjun tímabils spilaði ég ekki mikið, en kem meira inn seinni hlutann. Tengingar milli manna hafa orðið betri og liðsfélagarnir eru að finna mig í betri stöðum en áður. Svo hef ég sett hausinn 100% í þetta eins og ég sagði í viðtalinu eftir leikinn í Breiðholti. Hann er núna númer 1, 2 og 3 og maður ætlar sér meira að standa sig vel í þessu."


Kári lék einn leik með Fylki í efstu deild tímabilið 2020. Hann lék svo með Gróttu 2021, Elliða 2022 og Þrótti Vogum í fyrra. Hjá Elliða skoraði hann sjö mörk í 17 leikjum í 3. deildinni.

„Þetta er skemmtileg saga. Ég var að æfa með Fylki fyrir tímabilið 2022. Þá sagði Rúnar Páll (Sigmundsson) við mig að ég væri ekki inni í myndinni. Þá var komið í lok febrúar og flest lið búin að setja saman leikmannahópana sína. Ég fann að ég þurfti að spila og þá leitaði ég bara í venslafélagið og spilaði þar. Sama svo árið eftir, þá fór ég í Þrótt Vogum og er bara að vinna mig upp pýramídann. Ég fór kannski öðruvísi leið en margir, en stefnan er sú sama og hefur alltaf verið."

„Ég hef verið heppinn með það að Keflavík hefur sýnt mér þolinmæði og haft trú á mér, þrátt fyrir meiðsli. Halli þjálfari var duglegur að heyra í mér og ég fann fyrir trúnni. Það er frábært að hafa fengið tækifærið hér,"
sagði Kári.

Kári hefur skorað sjö mörk í sumar með Keflavík. Þar af eru fjögur í síðustu þremur leikjum. Úrslitaleikur Keflavíkur og Aftureldingar hefst klukkan 14:00 á laugardag.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner