Liverpool horfir til Þýskalands, nýir eigendur Everton eru hrifnir af Southgate og Leeds ætlar að stækka heimavöll sinn
banner
   þri 24. september 2024 21:48
Ívan Guðjón Baldursson
Maresca: Mikilvægt að hafa baráttu um byrjunarliðssæti
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Enzo Maresca, þjálfari Chelsea, var kátur eftir 5-0 sigur á heimavelli gegn Barrow sem leikur í fjórðu efstu deild enska deildakerfisins. Hann gerði ellefu breytingar á byrjunarliði Chelsea sem vann 0-3 gegn West Ham United í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Christopher Nkunku var hetja Chelsea í kvöld þar sem hann skoraði þrennu í sigrinum stóra. Nkunku átti frábært undirbúningstímabil með Chelsea og fékk tækifæri með byrjunarliðinu á upphafi úrvalsdeildartímabilsins en missti fljótt sætið enda er gríðarlega mikil samkeppni um byrjunarliðssæti.

Nkunku byrjaði sem fremsti sóknarmaður í kvöld, þar sem Maresca ákvað að hvíla Nicolas Jackson eftir að Kólumbíumaðurinn átti stórleik gegn West Ham um helgina. Nkunku gerði sér lítið fyrir og sendi skýr skilaboð í baráttunni um framherjastöðuna, en Joao Felix og Pedro Neto litu einnig vel út.

Maresca hefur því mikinn valkvíða þegar kemur að því að velja næsta byrjunarlið Chelsea, sem tekur á móti Brighton um næstu helgi.

„Það er mjög mikilvægt að leikmenn séu að berjast um sæti í byrjunarliðinu. Ég er ánægður þegar þeir gefa mér svona valkvíða, það þýðir að þeir séu allir að gera góða hluti," sagði Maresca.

„Við erum heppnir að við erum í mörgum keppnum og fáum tækifæri til að gefa öllum leikmönnum hópsins mínútur. Við höfum tíma til að finna út hvað er okkar besta byrjunarlið.

„Þetta eru allt leikmenn sem eiga skilið að vera byrjunarliðsmenn í ensku úrvalsdeildinni en þeir geta ekki allir spilað í einu. Það er stórkostlegt að þeir séu að grípa tækifærin þegar þau gefast."


Noni Madueke, Pedro Neto, Jadon Sancho, Joao Felix, Mykhailo Mudryk og Christopher Nkunku eru að berjast um byrjunarliðssæti á köntunum tveimur sitthvoru megin við Cole Palmer sem er með fast sæti í byrjunarliðinu.
Athugasemdir
banner