Arsenal vill Vlahovic - Howe orðaður við Man Utd - United hefur enn áhuga á Sesko
   mið 25. september 2024 11:06
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fer til Englands á einhverjum tímapunkti - „Hans tími mun koma"
Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson.
Mynd: Getty Images
Cardiff fagnar marki.
Cardiff fagnar marki.
Mynd: Getty Images
Freyr Alexandersson hefur síðustu daga verið mikið orðaður við Cardiff í ensku B-deildinni en það er útlit fyrir það núna að hann verði áfram þjálfari Kortrijk í Belgíu.

Freyr hefur náð mjög góðum árangri með Kortrijk en Cardiff er með sama eiganda, viðskiptamanninn Vincent Tan.

Freyr sagði í gær að það væri engin brottför á dagskrá, en það var rætt um Cardiff sögusagnirnar í síðasta þætti af Enski boltinn hlaðvarpinu

„Það eru sömu eigendur hjá báðum liðum, Kortrijk og Cardiff. Það er spurning hvort þeir vilji skemma það verkefni (hjá Kortrijk) með því að færa hann yfir. Ég vona að Freyr verði áfram í Belgíu þó það væri auðvitað skemmtilegt að fá hann í Championship," sagði Magnús Haukur Harðarson í þættinum en Cardiff er á botni Championship.

„Hann fer þangað á einhverjum tímapunkti. Mér líður eins og hans möguleikar séu endalausir. Hann er mannlegur, góður í samskiptum og fær fólk með sér í lið. Það er stærsti kostur þjálfara; ef þú nærð fólki með þér í lið, þá ertu í rosalega góðum málum."

„Auðvitað væri frábært að fá Frey inn í ensku deildina á einhverjum tímapunkti. Hann hafnaði Union Saint-Gilloise sem er þriðja besta lið í Belgíu. Það sýnir líka hvað hann er tryggur. Hann er maður sem er nær árangri og hefur sýnt það," sagði Magnús Haukur jafnframt og tók Jón Kaldal í svipaðan streng.

„Ég held að það sé fínt fyrir hann líka að vera ekki að koma inn sem einhver slökkviliðsstjóri og frekar að fá undirbúningstímabil. Hann er þó greinilega ótrúlega klár í því (að slökkva elda). Hans tími mun koma og hann er að gera þetta ótrúlega skynsamlega; hann er að stækka sinn reynsluheim og er að fara þetta á mjög skynsamlegan hátt," sagði Jón.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.
Enski boltinn - Leikur sem spannaði allt sviðið
Athugasemdir
banner
banner