HK gerði jafntefli gegn HK í Bestu deildinni í dag þar sem jöfnunarmarkið kom í uppbótatíma. Fótbolti.net ræddi við Ómar Inga Guðmundsson, þjálfara HK, eftir leikinn.
Lestu um leikinn: KA 3 - 3 HK
„Ég er sáttur að við náðum að taka stig en mér fannst við skapa okkur tækifæri til að skora fleiri mörk. Mér finnst leiðinlegt hvernig fyrsta og þriðja mark KA kemur, fast leikatriði í þriðja markinu og svo í fyrsta markinu fer boltinn í stöngina og við erum alltof lengi að bregðast við," sagði Ómar Ingi.
HK var manni færri allan seinni hálfleikinn en fékk góð tækifæri til að skora áður en markið kom síðan undir lokin.
„Blessunalega höfum við dregið einhvern lærdóm af hinum leikjunum sem við höfum misst mann út af. Það voru fullt, fullt af augnablikum í þessum leik, sérstaklega sóknarlega, sem við gerðum mikið af góðum hlutum en í varnarleiknum hefðum við átt að gera aðeins betur," sagði Ómar Ingi.
Ómar Ingi var svekktur að Erlendur Eiríksson dómari hafi gefið Atla Hrafni Andrasyni sitt annað gula spjald undir lok fyrri hálfleiks.
„Fyrra gula skil ég mjög vel, hann var seinn inn í það og búinn að fá létt tiltal fyrir það. Mér finnst seinna gula ansi 'soft', mér líður eins og Atli hafi komist með hægri fótinn í boltann þó hann hafi tekið eitthvað af manninum eftir það eða á sama augnabliki. Mér fannst vel hægt að sleppa því að gefa gult spjald þarna og það hefði ekki verið neinn skandall," sagði Ómar Ingi.
HK er tveimur stigum á undan Vestra sem er í fallsæti en liðin mætast á Ísafirði í næstu umferð. Rætt hefur verið um að furðulegt sé að liðið sem hafni í 11. sæti eftir 22 umferði fái heimaleiki gegn liðunum í kringum sig í úrslitakeppninni.
„Mér finnst það sérstakt að 11. sætið fái heimaleik á móti 12. og 10. sæti. Þar er keppnin mikil og það er mjótt á munum og mun alltaf vera. Það hefur ekkert með það að gera að þetta sé Vestri og við þurfum að fara á Ísafjörð," sagði Ómar Ingi.
„Þetta hefur verið rætt síðan tvískiptingunni var bætt við en einhvern vegin gleymist alltaf á veturna en er svo rætt aftur í september. Ekkert til að kvarta yfir en ég held að flestallir séu sammála um að niðurröðunin sé sérstök."
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. KA | 27 | 10 | 7 | 10 | 44 - 48 | -4 | 37 |
2. KR | 27 | 9 | 7 | 11 | 56 - 49 | +7 | 34 |
3. Fram | 27 | 8 | 6 | 13 | 38 - 49 | -11 | 30 |
4. Vestri | 27 | 6 | 7 | 14 | 32 - 53 | -21 | 25 |
5. HK | 27 | 7 | 4 | 16 | 34 - 71 | -37 | 25 |
6. Fylkir | 27 | 5 | 6 | 16 | 32 - 60 | -28 | 21 |