Liverpool horfir til Þýskalands, nýir eigendur Everton eru hrifnir af Southgate og Leeds ætlar að stækka heimavöll sinn
   þri 24. september 2024 16:13
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Var ósáttur hjá Þór og fór í KA - „Mjög sætt" að vinna bikarinn
Jakob Snær með bikarmeistaratitilinn.
Jakob Snær með bikarmeistaratitilinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jakob í leik með Þór.
Jakob í leik með Þór.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er mjög sætt," sagði Jakob Snær Árnason, leikmaður KA, eftir sigur gegn Víkingi í úrslitaleik Mjólkurbikarsins síðasta laugardag.

Jakob Snær spilaði 80 mínútur og gerði það býsna vel. Hann spilaði í hægri vængbakverðinum hjá KA-mönnum.

Ferill Jakobs er áhugaverður en Siglfirðingurinn fór í Þór í 3. flokki og steig þar sín fyrstu skref í meistaraflokki. Hann spilaði með meistaraflokki Þórs frá 2015 til 2021.

En árið 2021 var krafta hans ekki lengur óskað. Hann skipti svo yfir til nágrannana í KA.

„Það kom upp trúnaðarbrestur á milli mín og þjálfarans og á endanum varð það að samkomulagi að ég myndi yfirgefa félagið. Þegar mér bauðst svo að fara í KA ákvað ég að horfa bara á minn feril; ég er metnaðarfullur, leit á þetta sem rétta skrefið fyrir mig og er mjög spenntur. Ég hef aldrei spilað í efstu deild en tel mig geta bætt KA-liðið og gefið því styrk til að ná sínum markmiðum," sagði Jakob við Akureyri.net á þessum tíma.

„Ég er alls ekki fúll út í klúbbinn en hlutirnir þróuðust þannig að ég get ekki spilað fyrir þjálfarann og ég vona að fólk sýni þessu skilning."

Orri Freyr Hjaltalín var þjálfari Þórs á þessum tíma og sagði í kjölfarið: „Hann var bara ósáttur við sinn spilatíma og ég bauð honum að fara í annað lið sem hann gerði. Ég skil ekki alveg þennan trúnaðarbrest en það mál er bara gleymt og grafið. Hann óskaði okkur góðs gengis og ég honum. Það er engin fýla eða vesen í kringum þetta."

Þakklátur fyrir það tækifæri
Jakob sagði eftir bikarúrslitaleikinn að hann væri þakklátur fyrir tækifærið sem KA hefði gefið sér.

„Ég er þakklátur fyrir það tækifæri. Ég er búinn að fá að upplifa helling og stíga mikið upp. Ég held að þetta hafi verið flott fyrir mig. Ég er búinn að sýna hvað í mér býr síðan. Ég er ekki hættur," sagði Jakob sem er núna bikarmeistari með KA á meðan Þór endaði í tíunda sæti Lengjudeildarinnar.
Jakob Snær: Tilfinningarnar eiga eftir að rigna meira yfir mann seinna
Athugasemdir
banner