Arsenal vill Vlahovic - Howe orðaður við Man Utd - United hefur enn áhuga á Sesko
banner
   mið 25. september 2024 16:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Arnór Gauti: Mosfellsbær verður örugglega tómur
Lengjudeildin
Arnór Gauti Ragnarsson.
Arnór Gauti Ragnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Raggi Óla
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elmar Kári Enesson Cogic.
Elmar Kári Enesson Cogic.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Magnús Már Einarsson.
Magnús Már Einarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Leikurinn leggst rosalega vel í mig. Við erum með reynslu frá því í fyrra sem við tökum með okkur inn í þennan leik. Það er ekkert nema spenningur, sérstaklega að spila fyrir framan alla þessa áhorfendur úr Mosó," segir Arnór Gauti Ragnarsson, framherji Aftureldingar, við Fótbolta.net í dag.

Framundan er úrslitaleikur við Keflavík um sæti í Bestu deildinni næsta sumar. Liðin mætast á Laugardalsvelli á laugardag.

Spegilmynd af síðasta tímabili
Afturelding fór í úrslitaleik umspilsins í Lengjudeildinni í fyrra og tapaði þá gegn Vestra.

„Þetta er bæði það og sama og ekki. Þetta var náttúrulega glænýtt fyrirkomulag í fyrra, meiri spenna og spennustigið kannski aðeins of mikið. Núna eru margir að fara spila þennan leik aftur og ég held að við munum ná að halda spennustiginu aðeins neðar. Tímabilið yfir höfuð hefur verið nákvæmlega öfugt við í fyrra. Í fyrra byrjuðum við af krafti en enduðum illa. Í ár byrjuðum við svolítið lélega en enduðum af krafti. Það eru vindar í seglin hjá okkur og við komum af krafti inn í þennan leik, það er ekki spurning."

„Við lærðum margt og mikið af leiknum í fyrra. Þetta var svo nýtt og maður vissi ekki hvað maður væri að fara út í. Það mesta er spennustigið og hvernig maður á að spila úr þessum leik. Við fáum ekki vallaraðstæðurnar sem við myndum helst kjósa. Við þurfum svolítið að fara út úr okkar hugmyndafræði yfir í eitthvað annað. Við þurfum að tækla þetta aðeins öðruvísi en í fyrra, munum fara yfir það á næstu æfingum hvernig við munum klára Keflavík."

„Þetta voru mikil vonbrigði í fyrra og ekki spurning að við munum koma af fullum krafti inn í þennan leik, nýta meðbyrinn sem við erum með núna."


Afturelding spilar sína heimaleiki á gervigrasi en Laugardalsvöllur er auðvitað grasvöllur. Afturelding var eina gervigrasliðið í undanúrslitunum; Fjölnir, ÍR og Keflavík spila öll sína heimaleiki á grasi. Í síðasta leik, seinni undanúrslitaleiknum gegn Fjölni, var spilað á grasi.

„Sá leikur gæti eitthvað hjálpað okkur, en svona bæði og, ég held að Fjölnisvöllurinn sé örugglega betri en Laugardalsvöllurinn verður á laugardaginn."

Arnór Gauti nefnir að á föstudeginum verður spilað í úrslitaleik Fótbolti.net bikarsins á Laugardalsvelli. Innan við sólarhring síðar er svo spilað aftur á vellinum. Ástand vallarins verður því eflaust ekki það besta.

„Auðvitað spáum við í þessu. Við erum ekki að fara fá þessar fullkomnu aðstæður, þetta virðist svolítið vera þannig að það er horft á þennan lausa dag til að spila og leikurinn settur á þann dag. Ef þetta væri gervigrasleikur þá væri þetta náttúrulega allt annað dæmi, ekkert mál þá að spilaðir séu tveir leikir á tveimur dögum á sama velli."

„En auðvitað tekur maður því fagnandi að spila á Laugardalsvelli, maður gerir það ekki á hverjum degi og maður er spenntur og við ætlum að njóta þess. Ég ætla ekki að pirra mig of mikið á vallaraðstæðum."


Veit ekki hvað þjálfararnir eru að elda
Arnór Gauti hefur trú á sigri í ár en ber þó virðingu fyrir Keflavík. Árangur sumarsins sýnir hversu gott liðið er.

„Keflavík er frábært lið með frábæra einstaklinga og leikmenn sem geta unnið leiki. Sem betur fer er ég ekki þjálfari og ég þarf ekki beint að horfa í hvað þarf að stoppa. Ég veit ekki hvað Maggi og þeir eru að elda inni á skrifstofu. Það mun bara koma í ljós."

Örugglega tómur bær
Framherjinn á von á hörkumætingu úr Mosó á leikinn.

„Mosfellingurinn kann alveg að mæta, höfum það alveg á hreinu. Sama hvort það sé handbolti eða fótbolti, fólk mætir alltaf og styður sína menn. Ég finn fyrir mikilli spennu. Fyrir þjófa þá væri örugglega fínt að taka Mosfellsbæ á laugardaginn, bærinn verður örugglega tómur," segir Arnór Gauti á léttu nótunum.

Hefði sjálfur alltaf reynt að fá seinna gula
Elmar Kári Cogic snýr til baka úr leikbanni hjá Aftureldingu og verður með liðinu á laugardag. Hann krækti sér í rautt spjald í fyrri undanúrslitaleiknum gegn Fjölni og var því í leikbanni í seinni undanúrslitaleiknum. Ef hann hefði ekki fengið annað gult spjald í leiknum þá hefði hann verið í banni í úrslitaleiknum, eins skringilega og það hljómar.

„Það er búið að sýna sig síðustu tvö sumur hversu mikilvægur hann er fyrir okkur. Þessi gæði sem hann býr yfir mun gefa okkur helling, einstaklingsgæði sem geta unnið leiki. Það er mjög gott að endurheimta hann úr banni."

„Hefði ég reynt að fá annað gult spjald í sömu stöðu og hann? Já, alltaf. Ef einhver fótboltamaður segi nei við því og sé tilbúinn að missa af úrslitaleiknum, þá er eitthvað að, hausinn ekki á réttum stað. Maður myndi gefa báðar hendurnar til þess að spila þennan leik, þannig auðvitað myndi maður taka þetta á sig, eins ljótt og leiðinlegt þetta var. En auðvitað,"
segir Arnór Gauti.

Leikurinn á laugardag hefst klukkan 14:00.
Athugasemdir
banner
banner